Gríma - 01.09.1948, Blaðsíða 50
48
SAGNIR UM JÓN HALLDÓRSSON [Gríma
þér á mér?“ Jón svarar: „Tímalengdin auglýsir það,
og reyndin gerir það gott.“
Varð svo fátt um kveðjur, og reið Jón brott síðan.
13. Sagt fyrir um mann í lífshóska.
Einu sinni eftir að Jón á Syðra-Hvarfi var blindur
orðinn, var piltur þaðan af heimilinu sendur fram í
dal. Þetta var um miðjan vetur. Hláka hafði gengið
undanfarið og Skíðadalsá verið í vexti, en hafði nú
skorið sig niður, og var komið hjarn og föl ofan á.
Þegar komið var fram undir kvöld þennan dag, en
pilturinn ókominn, sagði Jón við heimafólk, að það
skyldi nú fara að grennslast um piltinn, því að hann
mundi í háska staddur. Fyrst í stað gáfu menn þessu
lítinn gaum, en þá byrsti gamli maðurinn sig og skip-
aði í ákveðnum rómi, að menn skyldu bregða strax við
og leita.
Voru þá sendir tveir menn, og röktu þeir slóð piltsins
fram að svonefndum Másstaðahöfða, sem er vestan
Skíðadalsár, alllangt fyrir framan Syðra-Hvarf. Sáu þeir
slóðina liggja þar til baka, og hafði hún stefnu á
Hjaltastaði, sem er bær skammt sunnan við Syðra-
Hvarf. Fylgdu mennirnir slóðinni eftir að ánni. Þar
sáu þeir gat á ísnum og heyrðu neyðaróp þar dálitlu
neðar. Gengu þeir á hljóðið eftir ísnum og brutu þar
gat á, og var pilturinn þar á eyrarodda undir ísnum og
mjög af honum dregið.
Þegar hann hafði ætlað austur fyrir ána, hafði ísinn
brotnað niður og straumurinn borið piltinn með sér
undir ísnum og slegið honum upp á þennan eyrarodda.
Má telja víst, að þarna hefði hann látið líf sitt, ef eigi
hefði verið hlýtt boðum Jóns.