Gríma - 01.09.1948, Blaðsíða 60
58 ÞJÓÐSÖGUR [Gríma
kaupmanni við og fór hjá sér, þegar Ólafur heilsaði
honum og þakkaði fyrir sendinguna; kvaðst hann vera
kominn þeirra erinda að segja honum, að hann geymdi
sendinguna heima hjá sér og ætla að senda honum
hana aftur mun magnaðri en áður, ef hann greiddi
sér ekki samstundis 200 ríkisdali til sátta og legði niður
alla prettvísi í viðskiptum sínum við aðra.
Kaupmanni datt ekki annað í hug en að Ólafur
hlyti að vera hinn mesti kunnáttumaður og þorði ekki
annað en ganga að þessum kostum skilyrðislaust. Þorði
hann aldrei að beita hrekkjabrögðum og prettvísi
framar.
b. Sokkabandið.
[Handrit Jónasar Rafnars. Eftir sögn Steinunnar á Keldunúpi
á Síðu 1915.]
Stúlka nokkur var að smala kvíám í þoku. Rakst
hún á steingráan hest í haganum, og af því að hún var
þreytt og orðin naumt fyrir, hnýtti hún upp í hann
sokkabandi sínu og settist á bak honum. En þetta var
þá nykur, sem tók jafnskjótt á sprett með hana til
tjarnar, sem var þar nærri, og öslaði út í hana; en um
leið og yfir hann flaut, losnaði stúlkan af baki hans,
skolaðist upp að bakkanum og hélt eftir sokkabandinu.
Bjargaðist hún þannig, af því að í bandið var spjald-
ofið þetta erindi:
Ljóst er letur á bandi
— lýði það segja má —:
Hæstur heilagur andi
hjálpi þeim, sem á.