Fræðaþing landbúnaðarins - 04.02.2005, Page 179
Fræðaþing landbúnaðarins 2005
Kálæxlaveiki
Guðni Þorvaldsson og Halldór Sverrisson
Landbúnaðarháskóla Islands, Keldnaholti
Inngangur
Kálæxlaveiki (Plasmodiophora brassicae) er sveppasjúkdómur sem leggst á plöntur af
krossblómaætt. Fóðurkál, gulrófur, næpur og ýmsar káltegundir til manneldis eru t.d. af
krossblómaætt. Þá eru sumar villtar tegundir sem hér vaxa af krossblómaætt t.d. hjartarfí,
hrafnaklukka, þefjurt o.fl. en þessi sjúkdómur getur einnig lagst á þær.
Þegar litið er til fjárhagslegs tjóns telst kálæxlaveiki einn versti skaðvaldur sem leggst
á plöntur af krossblómaætt (Karling, 1968). Þegar á 16. öld var sjúkdómurinn þekktur á Spáni
og hann var orðinn algengur í Skandinavíu í byijun síðustu aldar (Wallenhammar, 1997). Á
ýmsum svæðum erlendis hefur þurft að draga verulega úr ræktun á olíurapsi vegna þessa
sjúkdóms (Wallenhammar et al., 2000).
Sveppurinn sem sjúkdómnum veldur er slímsveppur, en sveppir af þeirri gerð mynda
ekki þræði heldur eru eins konar einfrumungar sem mynda bæði sundgró og dvalagró.
Kálæxlaveikisveppurinn fjölgar sér eingöngu í rótarfrumum hýsilplantnanna og fær þær til að
skipta sér óeðlilega og bólgna út. I rótafrumunum myndast svo dvalagró síðsumars. Þau losna
út í jarðveginn þegar rótin rotnar og bíða þar til næsta vors eftir kál- eða rófuplöntu, eða
einhverri annarri plöntu af krossblómaætt. Þá spíra dvalagróin og úr þeim koma sundgró sem
leita uppi rótarhár plöntunnar.
Dvalagróin geta lifað árum saman í jörðu þótt ekki séu hýsilplöntur til staðar. En þeim
fækkar smám saman og að lokum deyr sveppurinn út. Ekki ber heimildum saman um hve
langur tími líður þar til sveppurinn er aldauða, en það fer örugglega eftir umhverfisaðstæðum
og því hve grómagnið var mikið í upphafi. Oft er talað um 10-20 ár í þessu sambandi.
Erlendis er talið óhætt að rækta tegundir af krossblómaætt á 6-7 ára fresti. Til að útrýma
sveppnum verður hins vegar að bíða lengur.
Sjúkdómurinn lýsir sér þannig að hnúðar myndast á rótum plantnanna (1. mynd) og
ýmist draga úr vexti þeirra eða drepa þær alveg. Einnig stíflar sveppurinn leiðslukerfi
plönturótanna og hindrar vatnsupptöku þannig að blöð missa vökvaspennu og hanga á
sólríkum dögum. Þessi sjúkdómur er mjög smitandi og berst á nýja staði með jarðvegi og
sýktum plöntum. Þó kálplöntur séu með þennan sjúkdóm eru þær á engan hátt hættulegar til
manneldis eða fóðurs.
1. mynd. Kálæxlaveiki í gulrófum og fóðurkáli (ljósm. Halldór Sverrisson).
177