Saga - 2017, Side 32
Varðveisla staðarandans
Þó svo að friðun einstakra menningarminja og mannvirkja sé í ágæt-
um farvegi verður það sama ekki sagt um staðarandann, það sem á
latínu kallast „genius loci“.26 Staðarandinn nær til alls umhverfisins
og finnst ekki bara í því sem mætir auganu. Hann tekur til alls sem
maður sér og skynjar á einhverjum tilteknum stað — er einhvers-
konar flétta minninga og skynjunar. Allt hangir þetta saman og úr
þessu er ofinn vefur sem er sérstakur fyrir hvern stað. Þegar byggt
er einhvers staðar í borg eða landslagi er fléttað inn í þann vef sem
fyrir er27 en ekki byrjað á nýjum vef. En um þetta er deilt eins og lýst
er að framan.
Ef vel tekst til er það ekki hönnuðurinn einn sem ákveður útlit
þeirra mannvirkja sem byggja skal. Útlitið ræðst öðru fremur af
staðnum og staðarandanum. Þetta er kallað staðbundin nálgun eða
staðbundinn arkitektúr (e. regionalism). Fræðimaðurinn Markús
Vitrú víus (80/70 f.kr.–15/25 e.kr.) taldi að ekki væri hægt að byggja
með sama hætti í Egyptalandi og á Iberíuskaganum. Það væri m.a.
vegna þess að veðurfar væri ekki það sama á báðum stöð um, bygg-
ingarefnið væri mismunandi, handverkið öðruvísi og menningin
ólík.
Í hinu tvö þúsund ára meginverki sínu, Tíu bókum um arkítektúr,
talaði Vitrúvíus um „venustas, firmitas, utilitas“. „Venustas“, eða
fegurðin, er einskonar tungumál forma, rýmis og hlutfalla sem kalla
á minnisstæða upplifun og tengsl við hvern stað og tengir verð -
mætamat kynslóðanna í efni, hughrifum, rými og formi. Vitrúvíus
var tækni- og framfarasinnaður og fjallar því um „firmitas“, þ.e.a.s.
hversu vel hannað og rammgert tiltekið mannvirki er. Einnig má
halda því fram að Vitrúvíus hafi einna fyrstur manna vakið athygli
á nytjastefnunni (funktionalismanum) þegar hann talar um „utili-
tas“, þ.e. nytsemi eða notagildi.28
álitamál 31
26 Hjörleifur Stefánsson, Andi Reykjavíkur. Genius Reykiavicensis (Reykjavík: JPV
útgáfa 2008).
27 Vef. Gunnlaugur Stefán Baldursson, „Fléttað inn í borgarvefinn“, birt á
vefsíðunni Arkitektúr, skipulag og staðarprýði á eyjan.is 29. desember 2013,
http://blog.pressan.is/arkitektur/2013/12/29/flettad-inn-i-borgarvefinn/,
skoðað 4. okt. 2017.
28 „De Arkitektura“ eða Tíu bækur um arkitektúr. Marcus Vitruvius (80/70 f.kr.–
15/25 e.kr.). Um Vitruvius sjá m.a. Sigurð Thoroddsen, „Um arkítektúr og
bæjar skipulag“, Samvinnan 64:4 (ágúst 1970), bls. 14.
Saga haust 2017 _11_(13.11.).qxp_Saga haust 2004 - NOTA 25.10.2017 12:53 Page 31