Saga - 2017, Page 48
verður hún svo mikil að kirkjugarður tapi varðveislugildi sínu? Í
lögum um kirkjugarða segir um niðurlagða garða: „ekki má jarðrask
gera né reisa nein mannvirki“.53 Fyrrum taldist ekki rask þótt minn-
ingarmörk eyddust og væru ekki endurnýjuð né heldur að sléttað
væri yfir leiði.54 Þá mátti leyfa heyskap en ekki beit. Jarðrask merkir
væntanlega röskun legstaða þannig að beinagrindum sé sundrað og
er þetta sennilega viðmiðun Minjastofnunar, en vandinn er sá að
algengt var að beinagrindum sem fyrir voru væri raskað vegna
jarðsetningar. Ekki tapa garðar varðveislugildi við það. Röskun telst
hins vegar sjálfsagt mikil þegar bein eru grafin upp og flutt brott.
Getur Minjastofnun ákveðið að þess konar röskun verði svo mikil
að garður tapi varðveislugildi þegar lög kveða á um að niðurlagðir
kirkjugarðar séu friðhelgir? Það er vandséð. Og er þessi hluti kirkju-
garðsins úr sögunni sem kirkjugarður fyrst beinin hafa verið flutt
brott? Því verður að mótmæla; Minjastofnun getur veitt rannsókn-
arleyfi og kannski leyft brottflutning beina en friðhelgi garðsins er
ekki úr sögunni við það. Um þetta atriði ritar prestur: „kirkjuleg
vígsla er „character indelebilis“ eiginleiki sem aldrei verður afmáð -
ur. Þótt bein hafi verið fjarlægð skiptir það engu máli, garðurinn
geymir enn allt það hold, sem á beinunum var og vígsluna máir
ekkert burt“.55 Borgarstjóri segir hins vegar að kirkjugarðurinn hafi
verið raskaður vegna framkvæmda og fornleifar fluttar brott (bein)
og „því ekki ástæða til að endurskoða byggingaráformin“.56 Hér
rekast á sjónarmið, annars vegar tengd hefðum og studd lögum og
hins vegar kannski hugmyndir um að garðurinn hafi verið formlega
lagður niður og sé afhelgaður, sem hvorugt á við, og sé vanhelgaður.
krüger lyfsali í Thorvaldsensstræti 6 notaði þann hluta kirkju-
garðsins sem hann hafði til leigu og forsjár sem heimagrafreit árin
1882 og 1883 og líklega hefði ekkert verið því til fyristöðu að íbúar í
Aðalstræti 11 notuðu garðinn á sama hátt fram til 1940. Fólkið sem
þar bjó fór með forsjá meginhluta garðsins til þess tíma.
álitamál 47
53 Vef. Lög um kirkjugarða nr. 36/1993, 33. gr.
54 Um slíka sléttun og grasreit sjá t.d. lög um kirkjugarða frá 8.11. 1901, 7. gr., og
32. gr. núgildandi laga um kirkjugarða frá 1993. Svipuð almenn hugsun er í
lögum frá 1901, 1963 og 1993 um gamla kirkjugarða og mun styðjast við venju-
rétt.
55 Séra Þórir Stephensen í athugasemdum sem sendar voru Umhverfis- og skipu-
lagssviði Reykjavíkurborgar vegna breytinga á deiliskipulagi á Landsímareit,
september 2017.
56 Morgunblaðið 12. ágúst 2017, bls. 6, sbr. 4. ágúst 2017, bls. 11.
Saga haust 2017 _11_(13.11.).qxp_Saga haust 2004 - NOTA 25.10.2017 12:53 Page 47