Saga - 2017, Page 56
fordæming kvenna fyrir að eiga í sambandi við setuliðsmenn var
ýmist talin þjóðleg nauðsyn eða „fanatík og vitleysa“.6 Þótt fullyrða
megi að almenningsálitið í dag hallist frekar að seinna sjónarmiðinu
átti það fyrra miklu fylgi að fagna á hernámsárunum.7 Ástandsárin
eru einnig sérstök að því leyti að ríkisvaldið greip inn í aðstæðurnar
með setningu laga um eftirlit með ungmennum og tóku þau gildi 9.
desember 1941. Ef ungmenni yrðu uppvís að óæskilegri hegðun, svo
sem lauslæti, drykkjuskap og slæpingshætti, ætti að láta forráða -
menn vita og veita ungmenninu áminningu. Ef það dygði ekki til
mætti beita „hæfilegum uppeldis- og öryggisráðstöfunum, til dæmis
vistun ungmennis á góðu heimili, hæli eða skóla.“8 Lögin kváðu
einnig á um stofnun sérstakrar eftirlitsstofnunar og sérstaks dóm-
stigs, sem ætti að framfylgja lögunum, en þegar á hólminn var
komið var þessum lögum eingöngu beitt gegn stúlkum.
Lítið hefur verið vitað um framkvæmd þessara laga þar sem fáar
heimildir um störf þeirra stofnana sem þau kváðu á um voru tiltækar.
Gögn Ungmennaeftirlits lögreglunnar komu í ljós árið 2012, þegar
innsigli voru rofin á skjölum forstöðukonu þess, Jóhönnu knudsen,
en systkini hennar höfðu látið Þjóðskjalasafninu þau í té að henni
látinni. Þessi gögn, sem innihalda meðal annars rannsóknar gögn,
uppskriftir úr yfirheyrslum og dómsúrskurði, veita nákvæma inn -
sýn í vinnubrögð lögreglunnar og þá hugmyndafræði sem lá að
baki. Þar sem efni þessa skjalasafns er afar viðkvæmt er aðgengi að
skjölunum takmarkað við fræðimenn að fengnu leyfi Persónu -
verndar. Því hafa aðeins tvö verk verið unnin úr þeim, annars vegar
heimildamynd Ölmu Ómarsdóttur, Sviptar sjálfræði. Stúlkurnar á
Kleppjárnsreykjum, sem frumsýnd var í Bíó Paradís haustið 2015, og
grein Þórs Whitehead, „Ástandið og yfirvöldin. Stríðið um konurn -
ar 1940–1941“, sem birtist í hausthefti Sögu 2013 og fjallar um þá
atburðarás sem leiddi til setningar laganna og hina flokkspólitísku
umgjörð ástandsmála.9
„hún var með eldrauðar neglur og varir“ … 55
6 Herdís Helgadóttir, Úr fjötrum. Íslenskar konur og erlendur her (Reykjavík: Mál og
menning 2001), bls. 61.
7 Lausleg skoðanakönnun, sem gerð var árið 1943, leiddi í ljós að um 90% svar-
enda vildu ekki að íslenskar konur „legðu lag sitt við hermenn“, sbr. Þór
Whitehead, Ísland í hers höndum. Myndir úr stríði 1940–1945 (Reykjavík: Vaka-
Helgafell 2002), bls. 164.
8 Stjórnartíðindi 1942 A, bls. 111 (l. nr. 62/1942).
9 Þór Whitehead, „Ástandið og yfirvöldin. Stríðið um konurnar 1940–1941“, Saga
LI:2 (2013), bls. 92–142.
Saga haust 2017 _11_(13.11.).qxp_Saga haust 2004 - NOTA 25.10.2017 12:53 Page 55