Saga - 2017, Síða 62
gerðir sem takmörkuðu útivist unglinga og samskipti þeirra við her-
menn.22
Í fréttaumfjöllun um skólastjórafundinn, sem voru meðal annars
gerð rækileg skil í Tímanum, var hugmyndin um þann skaða sem
hlytist af samskiptum íslenskrar æsku og erlends setuliðs mótuð
nánar. Blaðaskrif um hernámsdaginn drógu upp heldur dökka
mynd af hugsanlegu siðferðisvandamáli, en þó að þar væri látið í
veðri vaka að undirliggjandi hætta fylgdi slíkum samgangi var
aldrei nákvæmlega tiltekið í hverju sú hætta fælist. Í umfjöllun
Tímans um skólastjórafundinn kom aftur á móti skýrt fram hverjar
afleiðingar samneytis við setuliðið gætu orðið. Þjóðin gæti glatað
fjöreggi sínu, andlegu og menningarlegu sjálfstæði, sem var talið
samofið persónulegri virðingu og sóma íslenskra nemenda. Á sama
tíma varð ástandið að einskonar táknmynd fyrir þá óvissu og sam-
félagslegu ólgu sem hernámið hafði í för með sér og segja má að
ímyndarsköpunin hafi meira og minna fylgt þeim tóni sem sleginn
var í umfjöllun blaðanna strax í upphafi hernámsins. Oftar en ekki
var viðkvæðið að koma hersins væri prófsteinn á siðgæði kvenna.
Stundum var þessi hugmynd sett fram í föðurlegum umvöndunar-
tóni, t.d. hjá blaðamanni Morgunblaðsins:
Í gær fjekk jeg tilmæli frá einum kunningja mínum um að minnast sjer-
staklega á eitt, viðvíkjandi erlendu hermönnunum og stúlkunum.
Hann kvaðst hafa tekið eftir því, að kornungar stúlkur hafi gert sjer leik
að því að leggja leið sína hvað eftir annað þar framhjá, sem dátar væru
á verði, og gefa þeim óspart hýrt auga. En þar sem hann þekti þessar
tignu telpur … þá vissi hann alveg fyrir víst, að þessir óvitar á ferming-
araldri gerðu sjer alls ekki grein fyrir því, hvað þær væru að gefa í skyn
með framkomu sinni. Auðsjeð var, að þessar ungu heimasætur hjeldu
að þær væru að hafa í frammi saklaust „grín“ … Þetta þurfa foreldrar
ungra stúlkna að benda þeim á, svo þær rati ekki á þann hátt út á glap-
stigu af hreinu þekkingarleysi og fávitaskap.23
En stundum voru umvandanirnar mun beinskeyttari og jafnvel
beinlínis rætnar, eins og í bæklingum rithöfundarins Steindórs
Steindórssonar, Setuliðið og kvenfólkið, sem hann seldi sjálfur á götum
„hún var með eldrauðar neglur og varir“ … 61
22 „Ávarp til þjóðarinnar frá skólastjórafundinum“, Tíminn 20. september 1940,
bls. 357. Ávarpið var einnig á forsíðu Morgunblaðsins sama dag.
23 „Úr daglega lífinu“, Morgunblaðið 17. júlí 1940, bls. 6.
Saga haust 2017 _11_(13.11.).qxp_Saga haust 2004 - NOTA 25.10.2017 12:53 Page 61