Saga - 2017, Page 63
Reykjavíkur. Steindór taldi að framtíð lands og þjóðar hvíldi á
herðum veiklyndra kvenna en viðnámsþróttur þeirra rénaði „að
minnstakosti um 50%“ þegar hermenn ættu í hlut.24 Hvort sem um
var að ræða föðurlegar umvandanir helstu blaðanna eða kynferðis-
lega rætin „sjoppu-rit“ var skýrt ákall eftir því að einhver tæki í
taumana, enda þótti mörgum sem ástandsmálin væru að fara úr
böndunum þrátt fyrir viðleitni forsætisráðherra og skólastjóra.25
Siðfár sprettur af því að tiltekin hegðun er skilgreind sem óæski-
leg. Til að undirstrika hættuna og sannfæra almenning um að hættan
sé raunveruleg er ákveðinn hópur, þjóðarskelfarnir, skapaður til að
persónugera vandann. Þjóðarskelfirinn er erkitýpa, sneidd öllum
jákvæðum eiginleikum en þess í stað hlaðin neikvæðum persónuein-
kennum sem miða að því að skaða samfélagið. Hinir ýktu nei kvæðu
eiginleikar eru síðan gagnrýnislaust yfirfærðir á alla þá sem eru
taldir tilheyra hópnum. Það gerir það að verkum að allur hópurinn
er talinn fjandsamlegur samfélaginu, álit sem aftur réttlætir ofsafeng-
in viðbrögð og ákall um inngrip.26 Ímyndarsköpunin um ástands -
stúlkuna fellur vel að þessum hugmyndum: Íslenskar konur stóðu
frammi fyrir siðferðisprófi sem þær höfðu fallið á fyrirfram sökum
ábyrgðarleysis, skorts á sjálfsstjórn og fávitaháttar. Þessi yfir-
borðskennda ímyndarsköpun var einhliða og lítið rými gefið fyrir
dýpri og flóknari greiningar. Vissulega heyrðust raddir sem reyndu
að skoða siðferðismálin í breiðara samhengi, t.d. í grein Þórunnar
Magnúsdóttur rithöfundar í Vikunni árið 1940. Þórunn, líkt og flestir
sem létu sig málið varða, kallaði eftir auknu aðhaldi af hálfu ríkisins,
en í stað þess að líta á dvöl bresku hermannanna sem „prófstein á
þroska og manngildi íslenzku kvenþjóðarinnar“, eins og margir
höfðu lagt til, lagði hún til að litið yrði á dvöl hersins sem „prófstein
á uppeldismenningu og almennan siðferðisþroska þjóð ar innar.“27
Slík viðhorf virðast ekki hafa náð eyrum almennings þar sem ríkjandi
viðhorf einkenndust frekar af ríkri afneitun eða tregðu til að sjá hina
meintu siðferðisvá sem fólst í samskiptum íslenskra kvenna við erlent
setulið í víðara samhengi.
hafdís erla hafsteinsdóttir62
24 Steindór Steindórsson, Setuliðið og kvenfólkið (Reykjavík: Alþýðuprentsmiðjan
1940), bls. 5.
25 Bjarni Guðmarsson og Hrafn Jökulsson, Ástandið: mannlíf á hernámsárunum
(Reykjavík: Tákn 1989), bls. 33.
26 Goode og Ben-yehuda, Moral Panics, bls. 72.
27 Þórunn Magnúsdóttir, „Halló, fallega stúlka!“, Vikan 3:47 (nóvember 1940), bls.
3–4 og 7.
Saga haust 2017 _11_(13.11.).qxp_Saga haust 2004 - NOTA 25.10.2017 12:53 Page 62