Saga - 2017, Síða 64
Ímyndin um ástandsstúlkuna, með skírskotunum til siðferðis-
brests íslensks kvenfólks, sem gæti leitt þjóðina til glötunar, var
byggð á hugmyndafræði þjóðernishyggjunnar. Eins og vikið var að
í upphafi hefur Bára Baldursdóttir sagnfræðingur greint ástandið út
frá kenningum félagsfræðingsins Niru yuval-Davis um mikilvægi
kyngervis við sköpun og viðhald þjóðernis. Samkvæmt þeim er
hugmyndafræði þjóðernisstefnunnar byggð á kynjuðum hugmynd-
um um mismunandi hlutverk karla og kvenna. Hlutverk kvenna er
ekki einungis að viðhalda þjóðinni sjálfri heldur einnig að viðhalda
þjóðerninu og menningu þess. Táknmynd þjóðernisins er kvengerð,
samanber hugmyndina um fjallkonuna, og líkamar kvenna eru
gerðir að táknrænum landamærum sem skilgreina mörkin milli
„okkar“ og „hinna.“ Bregðist konur þessu hlutverki sínu sem
„menn ingarlegir landamæraverðir“, til að mynda með hegðun eða
klæðaburði, er gripið til aðgerða líkt og um innrás væri að ræða.28
Sagnfræðingurinn George L. Mosse hefur fært rök fyrir því að
þjóðernishyggja reiði sig á borgaralegt siðferði til að skilgreina nánar
hvernig mörkin milli þess að tilheyra þjóðinni og standa utan
hennar voru dregin. Með því að höfða til velsæmistilfinningar borg-
aranna um hvað væri viðunandi hegðun og hvað ekki var siðferðis-
hugmyndum þjóðernishyggju gefið aukið vægi til að hafa áhrif á
gildi og viðmið borgaranna. Skýr siðferðisviðmið gátu veitt borgur-
unum fullvissu og öryggiskennd, tilfinningu um að þeir tilheyrðu
þjóðinni eftir að hafa uppfyllt ákveðin siðferðisleg skilyrði.29 Út frá
hugmyndafræði þjóðernishyggjunnar, sem var allsráðandi á Íslandi
á áratugunum í kringum lýðveldisstofnunina, var auðvelt að ýta
undir ótta og þannig skapa hættu úr samskiptum íslenskra kvenna
og erlendra hermanna. Með því að nálgast samskipti erlendra her-
manna út frá menningarlegu samhengi þjóðernishyggjunnar, þar
sem líkamar kvenna urðu að menningarlegum landamærum, mátti
„hún var með eldrauðar neglur og varir“ … 63
28 Bára Baldursdóttir, „kynlegt stríð“, bls. 64, og Þorgerður Þorvaldsdóttir, „Af
fegurðardísum, ástandskonum og fjallkonum: Lesið í táknmyndir hins kven-
lega í íslensku menningarumhverfi“, Kvennaslóðir. Rit til heiðurs Sigríði Th.
Erlendsdóttur sagnfræðingi. Ritstj. Anna Agnarsdóttir o.fl. (Reykjavík: kvenna -
sögusafn Íslands 2001), bls. 493–506, sjá einnig Nira yuval-Davis, Gender and
Nation (New york: Sage publication 1997), bls 26–39.
29 George L. Mosse, Nationalismus und Sexualität. Bürgerliche Moral und sexuelle
Normen. Titill á frummáli: Nationalism and Sexuality. Respectability and Abnormal
Sexuality in Modern Europe. Þýð. Jörg Torbitus (München: Hanser Verlag 1985),
bls. 19–20.
Saga haust 2017 _11_(13.11.).qxp_Saga haust 2004 - NOTA 25.10.2017 12:53 Page 63