Saga - 2017, Page 121
Við þessa leit rak ég augun í athyglisvert bréf frá þessum tíma.
Hér var um að ræða bónarbréf til konungs frá prestsekkjunni Mar -
gréti Jóhannsdóttur, skrifað af henni í júlí árið 1790, um að dóttir
hennar, Hólmfríður Jónsdóttir, fengi algjöran skilnað frá eiginmanni
sínum, Þorsteini Jónssyni. Það var framganga móðurinnar og tíma-
setning bónarbréfsins sem vakti áhuga minn á þessu máli. Bréfið
skrifaði Margrét einum mánuði eftir áðurnefndan tímamótaúrskurð
í Danmörku. Tveimur árum síðar sendi Hólmfríður bréf til konungs
þar sem hún bað um að fá að sleppa við að greiða fyrir skilnaðar-
leyfið. Við lestur bréfs Margrétar vöknuðu ýmsar spurningar. Af
hverju var leitað til konungs til að fá skilnað en ekki farið með skiln -
aðarmálið til dómsúrskurðar á prestastefnu, eins og þá tíðkað ist?7
Höfðu kirkjunnar menn enga aðkomu að þessu máli? Gat móðirin
sótt um skilnað fyrir hönd dóttur sinnar? Þessum spurningum
verður svarað í þessari grein en einnig verður fjallað um bónarbréf
Margrétar og Hólmfríðar, aðkomu íslenskra embættismanna að mál-
inu og viðbrögð danskra stjórnvalda við beiðnum mæðgnanna. Í
ljósi þess að engin tilskipun var gefin út í tengslum við fyrr nefndan
úrskurð sumarið 1790 og engar vísbendingar eru um að fregnir af
úrskurðinum hafi borist hingað til lands er ritunartími bónarbréfs
Margrétar mjög áhugaverður, og sú spurning vaknar hvort þarna
gæti verið um að ræða fyrsta skilnaðarmálið hér á landi eftir áður-
nefndan úrskurð sumarið 1790 og jafnvel eitt þeirra fyrstu í Dana -
veldi.
brynja björnsdóttir120
7 Frá siðaskiptum og til ársins 1786 hafði kirkjan lögsögu í hjúskaparmálum og
voru hjónaskilnaðir og önnur hjúskaparmál tekin til meðferðar og dóms á
prestastefnum, sem haldnar voru árlega samhliða Alþingi á Þingvöllum. Sbr.
Guðs dýrð og sálnanna velferð. Prestastefnudómar Brynjólfs biskups Sveinssonar árin
1698–1720. Már Jónsson tók saman (Reykjavík: Háskólaútgáfan 2005), bls. 27–
28, 47–50. Samkvæmt tilskipun Danakonungs árið 1786 skyldu hjónaskilnaðir
teknir til úrlausnar við veraldlega dómstóla sem skipaðir voru sýslumanni
ásamt prófasti og tveimur prestum, sjá: Lovsamling for Island V, bls. 353–354
(„Cancellie Skrivelse til Stiftbefalingsmand Levetzow, ang. Behandlingen af
Skilsmisse Sager, 9. desember 1786“); bls. 508–510 („Reskript til Stiftbe falings -
mand Levetzow og Biskoppen i Skalholts Stift Hannes Finnsson, ang. Ægte -
skabs Sagers Paadömmelse, 15. febrúar 1788“).
Saga haust 2017 _11_(13.11.).qxp_Saga haust 2004 - NOTA 25.10.2017 12:54 Page 120