Saga - 2017, Page 158
Vísunin til hins sanna Íslendings, að hann geti bæði verið karl og
kona, gengur auðvitað þvert á meginstraum innan vébanda íslenskr-
ar þjóðernishyggju, sem byggði, að mati Sigríðar Matthíasdóttur, á
„karlmannlegri staðalímynd“.33 Í Kvennablaðinu, sem stýrt var af
Bríeti Bjarnhéðinsdóttur, var gjarnan skrifað frá sjónarhóli kven -
frelsis þótt talað væri um „að bera sitt rétta föðurnafn“, enda var
hugmyndin um að kenna sig við móður sína ekki í umræðunni á
þessum árum. Snemma á tuttugustu öld var það orðið nánast
óþekkt að fólk kenndi sig við móður sína. Það hefur líklega ekki
verið fyrr en upp úr 1970 sem sú hefð fór að lifna við aftur að ein-
hverju marki.
Ekki er vitað hverjir rituðu þær greinar sem vitnað var hér til þó
að líklegt sé að kona hafi skrifað greinina í Kvennablaðinu. Þá væri
hér um mikilvæga undantekningu að ræða vegna þess að nær allir
sem tjáðu sig um þessi mál voru karlkyns. Fjarvera helmings lands-
manna frá þessu deilum þarf þó varla að koma á óvart þegar málin
eru sett í samhengi við liðna tíð. Eiginmennirnir voru álitnir vera
talsmenn og fulltrúar eiginkvenna sinna út á við og það breyttist
ekki fyrr en á fyrstu áratugum tuttugustu aldar, þegar giftar konur
urðu smátt og smátt að lögformlegum einstaklingum.
Að stela ættarnafni eða gera sig að fífli — erlendis
Eitthvað kann að hafa dregið úr andstöðunni við ættarnöfn á Íslandi
þegar nær dró aldamótunum 1900. Eitt af því sem ættarnöfnin áttu
að gera var að auðvelda öllum að skilja „ættirnar“, eða réttara sagt
karlleggina, í sundur. En þá fóru menn að taka eftir einu óvæntu,
nefnilega ættarnafnastuldi. Hér er dæmi úr Þjóðólfi frá 1892:
Nú á tímum eru uppi margir menn, sem skírðir hafa verið ættar nöfn um
annara manna, og hafa sumir þeirra tekið upp þessi nöfn, sem ættarnöfn
sín, þótt þeir séu ekkert skyldir ætt þeirri, er þeir hafa fengið skírnarnafn
sitt úr. Þetta er alveg óhafandi venja. Skárra er þó að skömminni til, að
burðast með eitthvert ættarnafn úr sinni ætt sem skírnarnafn.34
Og undir lok aldarinnar sagði blaðið frá vinnumanni í krísuvíkur -
hverfi sem bæri nafnið Páll Briem. Það var í sjálfu sér ekki í frásögur
ættarnöfn — eður ei 157
33 Sigríður Matthíasdóttir, Hinn sanni Íslendingur. Þjóðerni, kyngervi og vald á Íslandi
1900–1930 (Reykjavík: Háskólaútgáfan 2004), bls. 360.
34 „Skrípanöfn—Fleirnefni—Ættarnöfn“, Þjóðólfur 16. apríl 1892, bls. 69.
Saga haust 2017 _11_(13.11.).qxp_Saga haust 2004 - NOTA 25.10.2017 12:54 Page 157