Saga - 2017, Page 172
Í umræðunum í þinginu kom í ljós að viðhorfin til ættarnafna höfðu
breyst frá því fyrir tólf árum. Andstæðingar frumvarpsins fóru að
minnsta kosti að leita leiða til að milda áhrif mögulegs banns við
ættarnöfnum. Þannig lagði Jón Þorláksson til að þeir menn sem
bæru ættarnöfn eða tækju upp ný ættarnöfn myndu jafnframt kenna
sig til föður, móður eða kjörföður og þá þannig að ættarnafnið kæmi
síðast. Sú tillaga fékk ekki hljómgrunn. Umræðurnar voru annars
með svipuðu sniði og áður; andstæðingar ættarnafna töluðu fyrir
varðveislu þjóðlegrar menningar en gegn „uppskafningshætti sníkju -
menningarinnar“ um leið og rætt var um þær tillögur að nöfnum
sem væri að finna í „kleppskinnu“.80 Fylgjendur ættarnafna töluðu
á hinn bóginn um að „þjóðernisgasprarar“ stæðu fyrir árásum á
einkalíf fólks og einstaklingsfrelsið.81
Svo fór að frumvarp Bjarna frá Vogi, er bannaði ættarnöfn, var
samþykkt sem lög frá Alþingi. Niðurstaðan í neðri deild var sú að
þrettán greiddu atkvæði með en níu voru á móti. Það varð ekki aftur
snúið. Meirihlutinn fékk sitt fram. Ættarnöfn skyldu bönnuð, alla-
vega í lagalegum skilningi.
Af hverju bann við ættarnöfnum?
Fyrst mætti víkja að stjórnarmyndunarviðræðunum vorið 1924, sem
leiddu til þess að snemma í mars það ár tók við völdum ríkisstjórn
undir forystu Jóns Magnússonar. Allir ráðherrarnir, þrír að tölu,
komu úr hinum nýstofnaða Íhaldsflokki. Stjórnin þurfti hins vegar
á stuðningi þingmanna úr öðrum flokkum að halda til að geta varist
vantrausti. Guðmundur G. Hagalín rithöfundur fullyrðir að Bjarni
frá Vogi hafi tryggt sér stuðning við frumvarpið sem bannaði ættar-
nöfn gegn loforði um að verja stjórnina falli.82 Erfitt er að meta sann-
leiksgildi þessara orða, en hitt er þó ljóst að forsætisráðherrann hafði
kúvent í afstöðu sinni frá því ættarnafnamálið var á dagskrá árið
1913, þegar hann lýsti andstöðu manna við ættarnöfn sem hinni
mestu heimsku og fjarstæðu eins og áður hefur komið fram. Fjár -
málaráðherrann, Jón Þorláksson, sem jafnframt var formaður Íhalds -
flokksins, hélt á hinn bóginn sínu striki með andstöðu við hug-
myndir um slíkt bann.
ættarnöfn — eður ei 171
80 Alþingistíðindi 1925. B, d. 3293–3294.
81 Sama heimild, d. 3308.
82 Guðmundur Gíslason Hagalín, „Benedikt Sveinsson“, Andvari 81 (1956), bls. 43.
Saga haust 2017 _11_(13.11.).qxp_Saga haust 2004 - NOTA 25.10.2017 12:54 Page 171