Saga - 2017, Síða 174
skrif manna um ættarnöfn. Hvorki fyrr né síðar finnast dæmi um
annað eins. Og flestir þeir sem til máls tóku voru andsnúnir ættar-
nöfnum. Fyrir utan birtingu á tugum greina í blöðum og tímaritum
fluttu allnokkrir opinbera fyrirlestra um efnið. Meðal þeirra var
Árni Pálsson sem talaði hjá Stúdentafélaginu í Reykjavík árið 1916.
Þar gagnrýndi hann tillögur nefndarmanna, á köflum með kald -
hæðni að vopni: „Þeir hafa nú lokið starfi sínu, svo að nú getur hver
sem vill affeðrað sig og orðið að nýjum og fínni manni.“87 Enn á ný
glittir í sjónarmið þar sem ættarnöfn eru tengd við „fínt“ fólk. Ýmis
félagasamtök sendu frá sér ályktanir um málið, þar á meðal ung-
mennafélög. Á fjórðungsþingi sunnlenskra ungmennafélaga var
samþykkt: „Þingið telur íslenzkunni svo mjög misþyrmt með hinni
nýju ættarnafnahreyfingu, að óþolandi sé, og skorar á ungmenna-
félögin að vinna af alefli gegn henni.“88 Blaðið Vestri á Ísafirði
vonaði t.d. að útgáfa skrárinnar yrði „eitt öflugasta meðalið til þess,
að greiða ættarnafnatildrinu í landinu verðugt rothögg.“89 Og um
sumarið sagði í Morgunblaðinu: „Ég hef ekki ættarnafnabókina við
hendina — hefi engan frið haft með hana fyrir krökkunum, sem
þykir „meira grín“ að lesa hana, en nokkrar skrítlur …“.90 Dagblöð -
in kyntu þannig undir, með fregnum af nýjustu ættarnöfnunum sem
upp höfðu verið tekin og ósjaldan voru nefnd skrípanöfn.91
Til að skýra viðhorfsbreytingarnar meðal þingmanna verður
ennfremur að horfa til atriða sem tengjast vexti pólitískrar þjóðernis -
hyggju hérlendis á öðrum og þriðja áratugi aldarinnar. Henni fylgdi
öflug sköpun og áhersla á þjóðleg tákn, svo sem að að koma upp
þjóðfána, skipuleggja hátíðarhöld, heiðra þjóðhetjur eins og Jón for-
seta og reisa Safnahúsið í Reykjavík. Þetta gildir líka um stofnana -
væðinguna, sem fylgdi þróuninni frá heimastjórn og fullveldi til
lýðveldisstofnunar, svo fátt eitt sé nefnt. Óhætt er að segja að hinu
forna eftirnafnakerfi hafi verið lyft á stall með miðlægum táknum á
borð við þjóðfánann.
ættarnöfn — eður ei 173
87 Árni Pálsson, „Um ættarnöfn“, Á víð og dreif. Ritgerðir (Reykjavík: Helgafell
1947), bls. 270.
88 „Fjórðungsþing Sunnlendinga“, Ísafold 12. júlí 1916, bls. 2. Sjá einnig: „8. þing
Sunnlendinga-fjórðungs U.M.F.Í.“ Skinfaxi 7: 7 (1916), bls. 88; „Um ættanöfn“,
Heimilisblaðið 5:4 (1916), bls. 54.
89 „Ættarnöfn“, Vestri 15. apríl 1916, bls. 1
90 Sonur föður síns, „Gaman og alvara“, Morgunblaðið 16. júní 1916, bls. 1.
91 Sjá t.d. „Ættarnöfnin“, Morgunblaðið 28. sept. 1916, bls. 1.
Saga haust 2017 _11_(13.11.).qxp_Saga haust 2004 - NOTA 25.10.2017 12:54 Page 173