Saga - 2017, Page 198
Schierbeck var óöruggur um rekstrarframlagið frá yfirvöldum og
vildi
fara þess á leit við hið háa Alþingi að það tilnefni til þess bæra menn að
yfirfara/endurskoða árleg reikningsskil mín, á tilteknum tíma ár hvert.
Eftir eins árs rekstur má nýta niðurstöður þess árs til að stilla upp
nokkuð nákvæmri fjárhagsáætlun fyrir næsta rekstrarár.40
Hvað sem fjárhagsmálunum leið mátti sjá að Schierbeck fylgdist vel
með nýjungum í geðlæknisfræði og var greininni í Andvara ætlað að
upplýsa lesendur um nýjungar í geðlækningum.
Nú gengur líka stefna tímans meir og meir í þá átt, að setja reglulegar
geðveikra-nýlendur á stofn; gömlu geðveikraspítalarnir skuggalegu,
þar sem sjúklingarnir voru lokaðir inni í klefum eins og fangelsi, eru að
hverfa úr sögunni; frjálsleg geðveikrahæli með mörgum gæzlumönn -
um og hjúkrunarkonum eru að koma í staðinn.41
Schierbeck beindi sjónum sínum líka að fyrirkomulagi sem áratug-
um saman hafði tíðkast á Íslandi. Samkvæmt 24. grein sveitar-
stjórnalaganna frá árinu 1872 var hreppsnefndum heimilt að láta
fara fram undirboðsþing án milligöngu sýslumanns. Þá buðu fá -
tækir bændur í niðursetninga og fengu greitt úr sveitasjóðum fyrir
framfærslu þeirra.42 Í þessu tilliti var hann harðorður og nefndi að
væri „annaðhvort hættulegum brjáluðum mönnum komið fyrir hjá
bændum á kostnað sveitanna eða ættingja þeirra.“43 Hann nefndi
jafnframt að slíkt ætti einnig við í einu nágrannalandanna, það er að
segja í Noregi. Þó ber að taka fram að aðstæður þar voru ekki sam-
bærilegar við það sem var á Íslandi. Fyrsti sérbúni geðspítalinn
(Mentalen) hafði verið byggður í Bergen þegar árið 1833 og fljótlega
komu fleiri í kjölfarið.44
maðurinn sem kom og fór 197
40 Sama heimild. Frumtexti; „ansöge det höje Althing om at beskikke villige
Mænd til at gennemgaa mit aarlige Regnskab, og da lade dette blive dækket
hvert Aar paa fastsat Datum. Naar det förste Aar er gaaet, kan der vel nok
opstilles et nogenlunde korrekt Budget for samme Drift i de fölgende Aar.“
41 Hann nefnir þetta „open door system“ í grein sinni. Christian Schierbeck,
„Nokkur orð um geðveikrahæli á Íslandi “, bls. 200.
42 Tíðindi um stjórnarmálefni Íslands 4. maí, bls. 402; Gísli Ágúst Gunnlaugsson,
Ómagar og utangarðsfólk. Fátækramál Reykjavíkur 1786−1907 (Reykjavík: Sögu -
félag 1982). bls. 12.
43 Christian Schierbeck, „Nokkur orð um geðveikrahæli á Íslandi“, bls. 204.
44 Per Haave, Ambisjon og handling. Sanderuds sykehus og norsk psykiatri i et historisk
perspektiv ([Án útgáfustaðar]: Unipub 2008), bls 30.
Saga haust 2017 _11_(13.11.).qxp_Saga haust 2004 - NOTA 25.10.2017 12:54 Page 197