Saga - 2017, Blaðsíða 240
og tekjur þeirra voru að mestu leyti í þeirra höndum. Nýjungar í valdstjórn
telur Sverrir þrátt fyrir þetta tengjast kirkjunni og þá ekki einungis vegna
þess að kirkjuskatti hafði verið komið á; með stofnun biskupsstóla og sókna
var einnig komið á svæðisbundnu valdakerfi kirkjunnar, andstætt hinu per-
sónutengda valdi veraldlegra höfðingja.
Í öðrum hluta bókarinnar, sem ber nafnið „Samruninn“, er áhersla lögð
á deilur veraldlegra höfðingja og eins og ráða má af titlinum myndar þróun
héraðsríkja þungamiðju hans. Á tímabilinu 1190–1220 safnaðist veraldar -
vald í hendur fáeinna fjölskyldna á Íslandi; hér voru synir Sturlu Þórðar -
sonar framarlega í flokki og er sérstök áhersla lögð á uppgang bræðranna
Þórðar, Sighvats og Snorra. Það er því rökrétt að þriðji hluti bókarinnar,
„Höfðingjastéttin eyðir sjálfri sér“, hefjist um 1220, þegar Snorri Sturluson
er að ná hátindi valda sinna. Sá tími sem nú fór í hönd einkenndist af harðn -
andi deilum milli fáeinna metnaðarfullra höfðingja og fylgismanna þeirra.
Eins og kaflaheitin „Fæð með frændum“ og „Bræður munu berjast“ bera
með sér var ekki hægt að reikna með samstöðu frænda, mága og bræðra. Í
baráttunni um völd á Íslandi urðu allir keppinautar. Með Örlygsstaða bar -
daga 1238 og dauða Snorra Sturlusonar 1241 hefði mátt ætla að veldi Sturl -
unga væri fallið. Útkoma Þórðar kakala Sighvatssonar árið 1242 og deilur
hans við þá kolbein unga og Gissur Þorvaldsson sönnuðu þó að svo var
ekki. Þriðja hluta lýkur með för þeirra Gissurar og Þórðar á vit Noregskon -
ungs, sem gera skyldi út um mál þeirra. Í fjórða og síðasta hluta bókarinnar,
„kóngsins menn“, eru tímabilinu frá 1247 til 1281 gerð skil.
Eins og áður var vikið að er megintilgangur bókarinnar að bæta úr þörf
á aðgengilegu riti um Sturlungaöld. Það má skilja svo að bókin sé ætluð
almenningi og margoft bendir höfundur á að í henni verði sögð saga, hann
vilji „segja atburðasögu 12. og 13. aldar“ (bls. 12), og inngangi lýkur hann í
auðmýkt með því að benda á hvernig hver tími móti sína sögu og að sú
„sem hér fylgir“ sé ekki betri en aðrar „sem fyrr hafa komið en að hún [sé]
samin fyrir aðra kynslóð“ (bls. 15). Þrátt fyrir tvíræðni hugtaksins „saga“
verður lesanda því ljóst að hér er ekki um fræðilega bók að ræða heldur frá-
sögn. Þessu vali fylgja bæði kostir og gallar.
Til kosta má telja að stíll bókarinnar er persónulegur og höfundur
nálægur þótt hann gæti hlutlægni. Oft beitir hann því bragði að varpa fram
spurningum til lesenda sinna án þess að gefa bein svör og lætur þeim
þannig eftir að mynda sér sína eigin skoðun. Við samningu bókarinnar
hefur höfundur augljóslega haft í huga að hún yrði aðgengileg aflestrar.
Sagan sem sögð er nær hins vegar yfir mjög langt tímabil, tæp 200 ár, og því
kemur við sögu fjöldinn allur af einstaklingum; valdsmönnum, fylgdar-
mönnum, konum og afkomendum. Fjöldans og formsins vegna veitist les-
anda erfitt að fylgja leiðsögumanni sínum í gegnum örlög, baráttu og ekki
síst tengslanet þessa fólks. Ættar- og vináttutengsl hefði því mátt setja í
„tengslatöflur“, lesanda til glöggvunar.
ritdómar 239
Saga haust 2017 _11_(13.11.).qxp_Saga haust 2004 - NOTA 25.10.2017 12:54 Page 239