Strandapósturinn - 01.06.2009, Blaðsíða 139
137
aði ekki illa um fólk, en hún minntist bara ekki á Benjamín, en
það mátti ráða af bréfunum, að sambandi þeirra hafi verið lokið.
Hún talaði um dóttur sína og hve mikið yndi hún hefði af henni.
Þessa mynd af sér gaf hún mér, hún hefur ekki verið prentuð
áður. Ég skrifaði henni tvö bréf frá Jótlandi og gaf henni aftur
addressuna, sem ég myndi hafa í Kaupmannahöfn hjá Jóni,
bróður mínum. Vera getur ekkert um, að Ásgeir Blöndal hafi
heimsótt sig aftur. Hann gæti hafa gert það, Ásgeir var í Moskvu
veturinn 1937–1938 á Lenínskólanum, en hann heimsótti Veru
með mér, og við vorum víst einu Íslendingarnir auk Halldórs,
sem nokkru sinni sáum Sólveigu Erlu, dóttur hennar; einhvers
staðar á ég mynd af henni einni, litla krílinu.
Halldór Kiljan Laxness sá ég aldrei í Moskvu, en ég hitti hann
í Kaupmannahöfn, þegar hann var að fara austur og bað hann
fyrir böggul til Veru, lét hann hafa heimilisfang hennar. Þetta var
fyrir barnið, eitthvað þessháttar, minnir mig. Og bögglinum var
hann líklegast að skila, þegar hann varð vitni að handtökunni,
sem hann skrifaði um löngu seinna.[21] Reyndar segir Benjamín í
bók sinni, að Halldór hafi komið við í Stokkhólmi á þessari leið
sinni til Moskvu, og þar lét Benjamín Halldór hafa böggul, svo
Halldór gæti skv. þessu hafa farið með tvo böggla til hennar í
Moskvu, einn frá mér og annan frá Benjamín!
Við í prentsmiðjunum eða prentmyndaskólanum urðum ekki
varir við hreinsanirnar, engir hurfu þaðan, ekki svo lágt sett
fólk. Einhver var að vísu ásakaður um að setja sand í vélarnar,
og hann var látinn fara. Hreinsanirnar voru á meðal þeirra, sem
voru í pólitíkinni hjá Komintern, á blöðum eins og DZZ, en hætt
var að gefa DZZ út, nokkru eftir að ég fór frá Moskvu.“[22]
Haldið heimleiðis
„Ég sé í vegabréfi, að frá Rússlandi fór ég 10. október 1937
með lest til Turku og þaðan með ferju til Stokkhólms, og þangað
kom ég 12. október. Í Stokkhólmi stoppaði ég í 4 daga. Þar var
fullt af Íslendingum, Benjamín var þar, Sölvi Blöndal, Halldór
H. Jónsson, – þeim þótti Halldór H. fínn. Með lest kom ég
til Kaupmannahafnar 16. október. Ég dvaldi í nokkurn tíma í
Danmörku, var í mánuð úti á Jótlandi á búgarði hjá Sigrúnu,
systur minni, og sænskum manni hennar, hann var verkfræðing-