Strandapósturinn - 01.06.2009, Blaðsíða 111
109
bagga eftir, gat ekki loftað sátu, enda voru þetta votar sátur,
heyið var þurrkað á heimatúninu.
Næst var ég sendur til Hvítadals til að koma mér til manns eins
og sagt var í þá daga, að vinna fyrir mér. Það var nokkru áður en
foreldrar mínir skildu. Ég fór til hjónanna Torfa Sigurðssonar
og Guðrúnar Sigurðardóttur, sem voru að byrja búskap. Torfi
var albróðir Stefáns skálds og einn af hálfbræðrum föður míns
og hafði verið vinnumaður hjá honum, en Guðrún var dóttir
Sigurðar í Stóra-Fjarðarhorni. Á Hvítadal var ég fram undir
fermingu. Ég kom samt oft til Hólmavíkur. Eitt sinn var ég 2–3
vikur í Grímsey á Steingrímsfirði ásamt pabba og Rúnu systur.
Pabbi var þá að undirbúa flutning á húsi (Glaumbæ) frá eyjunni
til Hólmavíkur. Þessar vikur voru mér sem paradísarheimt. Þarna
lék ég lausum hala, fjölskrúðugt fuglalíf, og selurinn svamlaði
við ströndina eða gólaði á skerjum. Krían var mjög ágeng, enda
varptíminn hennar. Hún réðst að manni með goggi og klóm, og
fékk ég marga skeinu á hausinn af árásum hennar, unz mér hug-
kvæmdist að halda á priki eða rekaviðarlurki ofar höfði mínu.
Krían ræðst aðeins á efsta hluta andskota síns.
Stefán skáld bjó í Bessatungu, sem er skammt frá Hvítadal,
nema fyrsta árið, sem ég var þar, þá var hann á Hvítadal. Á
Hvítadal var tvíbýli. Jón Þórðarson, bróðir Sigurðar í Stóra-
Fjarðarhorni, átti alla jörðina og bjó á helmingnum af henni,
en leigði hinn. Hjá Jóni hafði Stefán skáld alizt upp, þeir voru
bræðrasynir. Ég man vel eftir Stefáni, fór á álftaveiðar með hon-
um, hann veiddi ekkert, en var skemmtilegur og hafði ekki uppi
neinn skáldskap við mig.
Ég fermdist á Stað í Steingrímsfirði, á matrósafötum, hjá
Þorsteini Jóhannessyni, sem seinna var prestur í Vatnsfirði. Við
vorum 7 eða 8 fermingarsystkinin vorið 1927. Við lærðum tossa-
kverið. Ég kunni kverið og þótti það léttur „kúrsus“. Amma mín
hafði kennt mér að lesa og notaði Helgakver með gotneska letr-
inu og benti mér á stafina með bandprjóni. Ég hafði verið í far-
skóla á ýmsum bæjum í Saurbænum, Ólafsdal, Litla-Múla, Efri-
Brunná, Miklagarði, og kennarinn var Jóhannes úr Kötlum, eld-
heitur hugsjónamaður í ungmennafélagshreyfingunni. Jóhannes
kenndi okkur að meta ljóð. Aðalsteinn Kristmundsson var með
okkur, þótt eldri væri (fæddur 1908). Þá var hann kallaður Alli