Strandapósturinn - 01.06.2009, Blaðsíða 26
24
þar sem kvöldið leið hratt með góðum veitingum og dansi fram
yfir miðnætti.
Laugardagurinn 13. júní var sjöundi og næstsíðasti dagur ferð-
arinnar. Dagurinn var frjáls fram að kl. 15:00 en þá var lagt af stað
út fyrir bæinn til að skoða munkaklaustur. Að lokinni skoðunar-
ferð gafst færi á að kaupa ýmislegt, sem munkarnir framleiddu á
staðnum, m.a. léttvín, um leið og boðið var upp á vínsmökkun.
Hópurinn var kominn aftur til Gjör um kvöldmatarleytið og eftir
það var kvöldið frjálst.
Sunnudagurinn 14. júní og síðasti dagur ferðarinnar rann upp
sólríkur og bjartur eins og raunar allir aðrir dagar í ferðinni.
Morgunninn fór í að pakka niður í ferðatöskur og sögur fara af
því að sést hafi til einstaka ferðafélaga að kíkja í nærliggjandi búð-
ir. Frá Gjör var haldið kl. 16:00 þaðan sem leiðin lá til Búdapest
að nýju. Í Búdapest beið hópsins bátssigling á Dóná með dýrindis-
kvöldverðarhlaðborði. Það var komið að ferðalokum og því vel
viðeigandi að þakka Krisztinu og Zoltan samfylgdina og einstak-
lega góða fararstjórn og leiðsögn. Auk þess var tækifærið notað til
að fara yfir helstu atriði vetrarins á léttum og gamansömum nót-
um. Að lokinni siglingu var haldið út á flugvöll þar sem Krisztina
og Zoltan voru knúsuð og kysst því að þau ætluðu ekki með hópn-
um heim heldur dveljast eitthvað áfram í heimabæ sínum, Gjör.
Með lendingu flugvélarinnar á Íslandi kl. 03:00 lauk fimmtu utan-
landsferð Kórs Átthagafélags Strandamanna.
Eftir gott sumarleyfi hófust æfingar haustsins 14. september.
Fram undan voru spennandi viðfangsefni eins og afmælishátíð og
aðventuhátíð. Fyrsta verkefnið var hins vegar að syngja við guðs-
þjónustu í Árbæjarkirkju sunnudaginn 19. október.
Afmælishátíðin var haldin sunnudaginn 25. október. Eins og
áður hefur komið fram þá var fimm öðrum kórum boðin þátt-
taka. Kórarnir voru, auk Kórs Átthagafélags Strandamanna,
Kvennakórinn Norðurljós frá Hólmavík, Landsvirkjunarkórinn,
Kvennakór Garðabæjar, Húnakórinn og Lögreglukórinn, en
hann forfallaðist á síðustu stundu og í hans stað kom Karlakór
Kjalnesinga. Kór Átthagafélags Strandamanna leiddi hátíðina
með því að koma fyrstur fram ásamt Jóhanni Friðgeiri Valdimars-
syni einsöngvara sem einnig var kynnir hátíðarinnar. Síðan komu
kórarnir hver á eftir öðrum og sungu hver fyrir sig fjögur til fimm