Strandapósturinn - 01.06.2009, Blaðsíða 79
77
var að fyrnast yfir málið, að gera þyrfti því betri, varanlegri og
samfelldari skil fyrir framtíðina. Ég mun hafa tekið þurrlega
undir þessa hugmynd Björns. Ég þurfti ekki langan umhugs-
unartíma. Ég hafði engar heimildir og mundi eiginlega ekkert,
nema að í lok Akranes-sýningarinnar fórum við bræður með alla
vasa fulla af 5 og 10-köllum heim til mín með Einari Hansen í
kaffi. Síðan drógum við upp seðlana og vorum lengi að telja.
Mig minnir að upphæðin sem við afhentum Einari væri alveg
um 5.000 krónur, og ber mér um það saman við blaðafregnir.
Annað atriði rifjaðist upp löngu seinna: Nokkur uggur var í okk-
ur bræðrum um að leigan fyrir heilt frystihús, undir sýninguna,
kynni að höggva djúpt skarð í aðgangseyrinn, hugsanlega gleypa
hann allan. Við kunnum ekki við að spyrja um leigufjárhæðina
fyrir fram. Svona nokkuð varð bara að koma í ljós síðar, eins og
sagt er. Forstjórinn sjálfur, Sturlaugur H. Böðvarsson, létti af
okkur öllu stressi og strikaði yfir þetta vafamál með því að borga
tífalt inngöngugjald kr. 100 fyrir sjálfan sig. Sýningarkostnaður
var því enginn.
Það var fyrir áratug eða svo, skömmu fyrir aldamótin, að kunn-
ingi Einars Hansen sem heimsótti hann á spítala komst ekki und-
an því að taka við möppu nokkurri með blaðaúrklippum. Einar
sagðist ekki vita hvað hann ætti við hana að gera. Kunningjanum
var vel við Einar og tók því við möppunni en vissi heldur ekki
hvað hann átti við hana að gera og tróð henni upp á næsta mann
við fyrsta tækifæri. Sá maður var ég. Þarna voru þá komnar allar
skjaldbökugreinarnar sem nefndar eru hér að framan bæði og
aftan. Þetta eru ljósrit, aðallega úr dagblöðunum. Textinn er víð-
ast greinilegur, en myndirnar flestar afleitar og varla nothæfar
til birtingar. Ljósritunartækni var enn á lágu stigi á þessum tíma.
Ekki hafði ég hugmynd um, frekar en hinir, hvað ég ætti að gera
við þessar blaðagreinar, nema að ég sendi Birni bróður ljósrit af
pappírunum. Við bræður sáum ekki tilgang í að hnoða saman
neinu hugverki úr því hráefni. Hvar ætti það t.d. að birtast?
Mappan hefur legið hjá mér síðasta áratuginn. Ég hef oft litið í
greinarnar mér til ánægju. Nú bíð ég þess að Héraðsskjalasafn
Strandabyggðar líti dagsins ljós, sem kvað ekki vera langt undan?
Það yrði væntanlega mitt fyrsta verk að leggja Einars-möppuna
þar inn til varðveislu, verði ég þá enn á róli.