Strandapósturinn - 01.06.2009, Blaðsíða 67
65
York. Hugmyndir um að Vínland hafi verið á Nýfundnalandi og
Leifsbúðir þá í L’Anse aux Meadows, þar sem Helge og Anne
Stine Ingstad grófu upp norrænar bæjarrústir sem vitað er að
eru frá því um árið 1000, verða að teljast hæpnar eins og áður
segir, því óhugsandi er að vínviður hafi vaxið og vínber náð
þroska þar, enda meðalhiti aðeins um 12°C í ágúst, heitasta
mánuðinum, og meðalhiti ársins um 2°C. Engar menjar hafa
heldur fundist er snerta þann þátt sögunnar, en það verður að
telja furðulegt ef allir Vínlandsfararnir höfðu þar viðdvöl eftir
heimsókn þeirra til Vínlands Leifs. Þar fundust heldur engar
menjar eftir búfé Karlsefnis, auk þess sem rústirnar benda til
mjög skamms dvalartíma hinna norrænu manna og því jafnvel
hæpið að Leifur, Þorvaldur, Karlsefni og Freydís hafi búið þar
hvert á eftir öðru samtals í 6–7 ár. Auk þess sem húsnæði þar
hefur hugsanlega verið of lítið fyrir fjölmenni það sem sögurnar
segja að hafi verið í ferð Karlsefnis. Þá segir Grænlendingasaga
ítarlega frá drápi Freydísar og félaga hennar á Austfirðingunum
Helga og Finnboga og þeirra liði við Leifsbúðir, en þeir voru
með í hennar Vínlandsleiðangri eins og sagan segir. Förunautar
Helga og Finnboga voru liðlega 30, en engin ummerki fundust
við uppgröft í L’Anse aux Meadows um jarðsetningu eða greftr-
un líka þeirra félaga, en Freydís er sögð hafa fengið Leifsbúðir
að láni hjá Leifi hálfbróðir sínum. Þetta mælir enn gegn því að
Leifsbúðir hafi verið í L’Anse aux Meadows. Ekki er auðvitað
hægt að útiloka að Leifur hafi aðeins stoppað stutt, fáa mánuði,
á hinu eiginlega Vínlandi, sem sennilega var við Lárentsfljót og
fært sig svo um haustið til Nýfundnalands, þar sem hann hefur
þá reist margnefndar Leifsbúðir og væntanlega dvalið vetrarlangt
og beðið byrjar um vorið fyrir siglinguna heim til Brattahlíðar.
Draga má það þó í efa því byggingar í L’Anse aux Meadows voru
aðeins bráðabirgðabúðir, sem væntanlega hentuðu illa til vetr-
ardvalar eins og nánar verður getið síðar (Magnús Magnússon).
Ekkert mælir í reynd gegn því að vínviður hafi fundist á
Vínlandi Leifs og hann, vínviðurinn, einmitt leitt til nafngiftar
landsins. Vitað er að vínviður vex í dag á því svæði sem líklegt
er að Vínland hafi verið og að hann hafi vaxið þar fyrir þúsund
árum einnig, því veðurfar var með svipuðum hætti þá og nú
(P.B.). Ekki er heldur ástæða til að efa að leiðangur Leifs fann