Strandapósturinn - 01.06.2009, Blaðsíða 64
62
suður fyrir Kjalarnes sem líklegt eða hugsanlegt er að hafi verið
nyrst á Bretoneyju.
Mjög nærtækt er að álykta að Guðríður Þorbjarnardóttir, sem
augljóslega var gagnmerk kona, hafi sagt afkomendum sínum
ítarlega frá ævintýrum sínum á Vínlandi og á Grænlandi eftir
að heim kom í Skagafjörð, eftir nokkurra ára dvöl á Grænlandi
og Vínlandi. Eins og fram kemur í Eiríkssögu rauða voru þessi
ævintýri einstök og einkar frásagnarverð og hafa því vafalaust
m.a. af þeirri ástæðu geymst í minni manna jafnvel í nokkra
mannsaldra innan ættarinnar og hugsanlega í megindráttum
lítið brenglaðar fram að ritunartíma sögunnar. Afkomendur
Guðríðar og Karlsefnis voru auk þess merkisfólk, þrír biskupar
og annað menntafólk, og má því ætla að nokkuð rétt sé farið í
megindráttum með þá atburði sem um er fjallað. Gera má þó
ráð fyrir að höfundar sagnanna hafi fært frásagnir nokkuð í stíl-
inn eftir því sem best hentaði þeirra tilgangi með sögurituninni.
Hitt er svo annað mál að frásagnir, t.d. af völvunni á Grænlandi
í Eiríkssögu og heimsókn huldukonunnar í húsakynni Guðríðar
á Vínlandi sem sagt er frá í Grænlendingasögu, en huldukonuna
sá enginn nema Guðríður sjálf, eru auðvitað ekki trúverðugar í
hugum nútímamanna. Ýmislegt fleira í sögunum hefur einnig á
sér nokkurn og jafnvel vafasaman ævintýrablæ, en alls ekki víst
að mönnum hafi þótt það ótrúverðugt eða óviðeigandi þegar
sögurnar voru ritaðar. Guðríður hefur auðvitað þekkt sína sögu
og sín ævintýri best og því lagt megináherslu á þá atburði sem
tengdust henni og manni hennar Karlsefni og ferðafélögum
þeirra. Auðvitað hefur hún þó einnig þekkt vel til ferða Leifs
sem og síðari ferða, er farnar voru áður en þau Karlsefni lögðu
upp í sína ferð, því hún var jú búsett í Brattahlíð og nákunnug
Leifi og bræðrum hans. Tók þar að auki þátt í ferð Þorsteins
Eiríkssonar, fyrri manns síns, sem heitið var til Vínlands, en
endaði með hafvillum og ósköpum eins og sagan greinir. Margt
hljómar reyndar furðulega í frásögn af þeirri ferð og sumt er
jafnvel mjög ýkjukennt. Sjálfsagt hefur höfundur Eiríkssögu
gengið út frá því að aðrir segðu, eða hefðu jafnvel þegar sagt,
ítarlega frá öðrum Vínlandsförum og ferðum þeirra. Þær frá-
sagnir hafa því væntanlega verið vel þekktar flestu samtímafólki
Guðríðar á Grænlandi og á Íslandi og því ekki verið ástæða til