Fréttablaðið - 20.01.2022, Blaðsíða 28
Við erum í
dag komin
með
heildar-
lausn fyrir
veitinga-
staði.
Inga Tinna Sigurðardóttir
er stofnandi fyrirtækjanna
Icelandic Coupons og
Dineout. Fyrirtækin hafa
stækkað hratt á undan-
förnum árum og fram undan
er útrás til Noregs.
Inga Tinna Sigurðardóttir rekstrar-
verkfræðingur stofnaði árið 2015
fyrirtækið Icelandic Coupons sem
er afsláttarapp, en fyrir þann tíma
hafði hún meðal annars unnið í
banka og sem flugfreyja.
„Ég vann hjá Arion banka meðal
annars í eignastýringu og svo vöru-
þróun og var að feta mig upp met-
orðastigann, þegar ég áttaði mig
á því að mig langaði til að prófa
að fara í eigin rekstur. Ég ákvað
að segja starfi mínu lausu og vissi
ekkert hvað ég ætti að fara að gera.
Ég fór síðan að vinna sem flug-
freyja hjá Icelandair, sem ég hafði
gert samhliða verkfræðináminu
og þá spratt upp hugmyndin um
Icelandic Coupons, af því að far-
þegar voru oft að spyrja hverju við
mæltum með að gera á Íslandi og
hvert þeir ættu að fara að borða.
Þannig að úr varð bæklingur sem
fyrst var prentaður í 1500 eintök-
um þar sem voru afsláttarmiðar
sem giltu á veitingastöðum, börum
og verslunum.
Einu og hálfu ári síðar var búið
að þróa Icelandic Coupons-appið
sem er afsláttarapp og þá var ég
byrjuð að láta prenta 70.000 eintök
af bæklingnum. Í dag erum við
með rúmlega 50.000 virka not-
endur í Icelandic Coupons appinu,
Íslendinga og erlenda ferðamenn,
þannig að þetta hefur margfald-
ast.“
Um 280.000 manns
Það var svo árið 2017 sem Inga
Tinna fékk hugmyndina að
Dineout.
„Ég var oft á fundum með
eigendum veitingastaðanna á stöð-
unum þeirra og þá tók ég eftir því
að margir veitingahúsaeigendur
voru bara með stílabækur eða
notuðu Excel þegar teknar voru
niður borðapantanir í gegnum
síma, tölvupóst eða Facebook. Ég
hugsaði með mér að það hlyti að
vera til betri leið á þessari tækniöld
sem við lifum á. Ég hafði kynnst
því á ferðalögum mínum erlendis
að panta borð á veitingahúsum í
gegnum bókunarsíður, þannig að
ég skoðaði að taka slíkt kerfi til
landsins og byggja bara á því, en
komst að því að það væri best að
gera þetta algjörlega frá grunni og
vera engum háð og geta þar af leið-
andi breytt kerfinu eftir þörfum. Þá
fékk ég til liðs við mig forritara og
í dag eru þeir meðeigendur mínir í
Dineout, en þeir eru tveir sem hafa
gert öll Dineout-kerfin frá grunni,
annar þeirra er Magnús Björn
Sigurðsson, bróðir minn, og hinn er
Viktor Blöndal Pálsson.
Við erum í dag komin með
heildarlausn fyrir veitingastaði.
Byrjunin var borðabókunarkerfi,
sem átti alltaf að vera eina afurðin
okkar, en þegar Covid-heims-
faraldurinn skall á þá bjuggum
við til matarpöntunarkerfi fyrir
„take away“ og heimsendingar.
Við erum komin með kassakerfi
sem er sölukerfi á veitingastöð-
unum og við erum komin með QR
kóða inn á veitingastaði, þar sem
almenningur skannar kóðann og
getur pantað mat án þess að þörf
sé á þjónustu.
Eins erum við með QR kóða inni
á f lestöllum hótelum og stærstu
hótelkeðjum landsins, þar sem
hægt er að panta herbergisþjón-
ustu. Við erum auk þess komin í
heimasíðugerð fyrir veitingastaði
og aðra þjónustuaðila, þannig
að við erum í raun og veru orðin
hugbúnaðarhús sem byggðist upp
vegna þarfarinnar á markaðnum.
Það er alveg klárt mál að það
var þörf fyrir þetta. Þegar nýr
veitingastaður opnar í dag þarf
hann í raun bara að hafa samband
DINEOUT er fyrirtæki í útrás
Inga Tinna er
hugmynda-
smiðurinn að
Dineout.
FRÉTTABLAÐIÐ/
SIGTRYGGUR ARI
við okkur og við útvegum allar
lausnir sem þarf.
Við erum ekki bara með hug-
búnað fyrir veitingastaði og
hótel, heldur erum við líka brú til
almennings þar sem almenningur
getur bókað borð og pantað mat.
Nú þarf ekki að svara tölvupóstum
til að staðfesta borðabókun,“ segir
Inga Tinna, en í dag sér fyrir-
tæki hennar um rúmlega 80.000
borðabókanir í hverjum einasta
mánuði og segir hún að á bak við
þann fjölda setjist um 280.000
gestir til borðs í gegnum pantanir
og bókanir í Dineout.
Blóð, sviti og tár
Inga Tinna nefndi matarpantanir
og segir hún að þar sé mikil velta
og vinsælt hjá almenningi að panta
sér mat heim og veislubakka fyrir
fjölskyldu og vini. Veitingarnar er
hægt að panta í gegnum Dineout-
appið og dineout.is „Þetta er í
rauninni svar okkar við breyttum
áherslum í tengslum við heimsfar-
aldurinn en veitingastaðir þurftu
jafnvel að loka á tímabili, eða
þegar borðabókanir detta niður
og fjöldatakmarkanir eru, þá fer
almenningur meira í matarpant-
anir og „take away“.
Við vildum sinna veitinga-
stöðunum þar – fínni stöðum sem
og bistro-stöðum og almennum
skyndibitastöðum, þó svo að
mottó okkar sé að vera með gæða-
stimpil varðandi þá staði sem eru
hjá okkur, en við veljum gaumgæfi-
lega hverjir komast inn á markaðs-
torgið okkar.“
Í dag eru um 180 veitingastaðir í
viðskiptum við fyrirtækið.
Heimsfaraldurinn hefur haft
mikil áhrif á rekstrargrund-
völl margra fyrirtækja svo sem
veitingahúsa og það hefur svo
bein áhrif á fyrirtæki Ingu Tinnu.
„Hlutabótaleiðin hjálpaði mikið í
fyrra og hafði gríðarlega mikið að
segja fyrir reksturinn. Þetta eru
vægast sagt krefjandi tímar sem
við lifum á í dag og umhverfið
breytist jafnvel á einni nóttu. Það
er gríðarlega mikilvægt að það séu
úrræði og þau séu til taks fljótt,
þegar landslagið er eins og í dag
varðandi heimsfaraldurinn.
Flestir veitingastaðir voru alltaf
uppbókaðir síðastliðnar vikur og
mánuði, en í dag eru takmarkanir
þannig að viðsnúningurinn er
algjör. Góð og sterk fyrirtæki geta
jafnvel borið varanlega skaða af
töfum í úrlausnum og stuðningi.
Dýrmætt og mikilvægt er að passa
upp á fyrirtæki eins og nýsköp-
unarfyrirtæki og fyrirtæki sem
eru búin að standa sig vel eins og
Dineout og Icelandic Coupons í
allan þennan tíma.
Nýsköpun er gríðarlega mikil-
væg í stóra samhenginu og algjör
synd ef faraldur sem þessi hefur
varanleg áhrif á annars mörg
frábær fyrirtæki. Ef við hefðum til
dæmis ekki brugðist við með þeim
hætti að búa til matarpöntunar-
kerfi og herbergjaþjónustukerfi
fyrir hótelin og hefðum einvörð-
ungu byggt á borðabókunum, sem
er okkar tekjulind, hefði augljós-
lega allt þurrkast út.“
Vegur Dineout fer vaxandi og
nú út fyrir landsteinana, en í sam-
starfi við miðasölufyrirtækið tix.
is, er búið að gera stóran samning í
Noregi við kvikmyndahúsakeðju.
„Þá erum við komin með „all in
lausn“ fyrir tónleikahallir, kvik-
myndahús og leikhús, samhliða
því að við erum með „all in lausn“
fyrir hótel og veitingahús. Þannig
að við erum að fara svolítið bak-
dyramegin inn í Noreg með tix.is
og þá erum við komin með kerfi
sem heldur utan um miðasölu,
matarpantanir og sölukerfi. Þetta
gerir það að verkum að tónleika-
hallir, kvikmyndahús og leikhús
geta notað eitt og sama kerfið sem
verður það fyrsta sinnar tegundar
í Evrópu.“
Inga Tinna segir það kostnaðar-
samt að ætla sér út fyrir landstein-
ana. Hún nefnir í því sambandi
mikilvægi mögulegra fjárfesta og
styrkja. „Ég er mjög þakklát fyrir
að við hlutum styrk frá Tækni-
þróunarsjóði, Rannís. Við erum
annars búin að vera styrkjalaus
frá byrjun og höfum bara byggt
hlutina upp á eigin framlögum og
vinnuframlagi og ekki tekið nein
lán, sem ég er ákaflega stolt af.
Þessu fylgir blóð, sviti og tár.“ n
8 kynningarblað 20. janúar 2022 FIMMTUDAGURFÉLAG KVENNA Í ATVINNULÍFINU