Fréttablaðið - 20.01.2022, Blaðsíða 69
Helga Melkorka Óttars-
dóttir, eigandi og formaður
stjórnar hjá LOGOS, segir að
verkefni tengd sjálfbærni
séu henni hugleikin og að
LOGOS leggi mikla áherslu á
þann málaflokk.
Helga hefur starfað í rúm 20 ár
hjá LOGOS. Áður starfaði hún hjá
Eftirlitsstofnun EFTA í Brussel
frá útskrift úr framhaldsnámi.
„Síðan hefur minn fókus mikið
verið á samkeppnisrétt, Evrópu-
rétt og ýmis tengd verkefni okkar
viðskiptavina á hverjum tíma á
fleiri sviðum. Þetta eru fjölbreytt
úrlausnarefni: samningagerð,
stjórnsýslumál og dómsmál fyrir
héraðsdómi, Landsrétti og Hæsta-
rétti hér á landi. Einnig hef ég flutt
mál fyrir EFTA-dómstólnum og
rekið mál fyrir Mannréttindadóm-
stól Evrópu,“ segir Helga.
Mikil og hröð aukning í
verkefnum á sviði sjálfbærni
„Umræðan um sjálfbærni og
samfélagslega ábyrgð hefur verið
áberandi. Innanhúss vinnum við
öflugt og fjölbreytt starf með sjálf-
bærni að leiðarljósi. Við höfum sett
okkur sjálfbærnistefnu þar sem
við vinnum að markmiðum okkar
á því sviði. Lögmenn stofunnar
búa yfir sérþekkingu á þessu sviði
og höfum við í auknu mæli veitt
viðskiptavinum alhliða þjónustu
sem samræmist nýjustu viðmiðum
um sjálfbærni hverju sinni. Upp á
síðkastið höfum við svo verið að
útvíkka þetta þjónustusvið hjá
okkur í takt við fjölda og fjöl-
breytni verkefna á sviðinu.“
Verkefni á sviði sjálfbærni eru
að sögn Helgu enn eitt dæmið um
getu stofunnar til að uppfylla fram-
tíðarþarfir viðskiptavina. „Mark-
mið LOGOS er að koma að málum
snemma og aðstoða viðskiptavini
við fylgni við lög frá upphafi, og
reyna þannig að koma í veg fyrir
að vandamál komi upp. Það getur
verið býsna flókið að þekkja og
fylgja öllum lögum og reglum sem
eru gildandi á hverjum tíma enda
er regluverkið nú mun flóknara en
áður var. Við höfum boðið upp á
fræðslu á ýmsum réttarsviðum sem
mörg fyrirtæki nýta sér.“
Nýtt regluverk ESB
„Innan Evrópusambandsins hefur
orðið mikil þróun í regluverki á
sviði sjálfbærni. Nýlega var sam-
þykkt flokkunarreglugerð sem er
upphafið að nýrri sýn í fjárfesting-
um. Kerfið byggir á samræmdum
skilgreiningum um umhverfis-
sjálfbæra atvinnustarfsemi. Þá er
lögð skylda á tiltekin fyrirtæki að
veita upplýsingar um stöðu sína á
því sviði. Ekki er hægt að kalla fjár-
festingu eða starfsemi græna nema
hún uppfylli tiltekin skilyrði þar
að lútandi og stuðli að tilteknum
markmiðum í þágu umhverfisins.
Ég fann snemma að mig langaði
að koma inn í mál fyrirtækja fyrr,
áður en þau urðu að málum til
rannsóknar. Maður sér ýmislegt
eftir á sem hefði mátt gera öðru-
vísi þegar maður kemur seint inn
í mál. Með fræðslu og lagfæringu
ýmissa ferla má stuðla að því að
starfsemi fylgi lögum og koma í
veg fyrir vanda sem ella hefði geta
komið upp. Þegar regluverk ESB fór
að þróast í átt að frekari sjálfbærni
vaknaði enn meiri áhugi á sjálf-
bærnimálum fyrirtækja.
Fjárfestar sem vilja láta sig
sjálfbærni varða geta nýtt flokk-
unarkerfið til að skera úr um virði
fjárfestinga í fyrirtækjum, þá
hvort starfsemi fyrirtækja teljist
umhverfissjálfbær. Við höfum
unnið verkefni fyrir viðskiptavini
sem vilja átta sig á betur á reglu-
verkinu og kynna sér hve mikil
losun má vera hjá fyrirtæki svo
starfsemi teljist umhverfissjálfbær.
Einnig aðstoðum við fyrirtæki
við að setja upp innri stefnur og
reglur á sviði sjálfbærni. Þar má
nefna verkefni í grænni fjármögn-
un, úttekt á umhverfisverkefnum
og heildræna ráðgjöf. Þarna nýtum
við okkar þekkingu og reynslu og
heimfærum á nýtt svið.
Það er augljóst að fjárfestar eru
áhugasamir um að vita hvort fjár-
festingar sem þeir vilja koma að séu
raunverulega grænar og sjálfbærar.
Nú er verið að búa til sameiginlega
skilgreiningu á því hvað telst sjálf-
bært og grænt. Áður gat ýmislegt
fallið undir það án þess að að baki
lægi samræmd skilgreining. Þá er
áhugavert hvernig sjálfbærnimál-
efni tengjast fjölmörgum öðrum
sviðum, eins og orkumálefnum
og fjármögnun, en á þeim sviðum
vinnum við fjölmörg verkefni.“
Jafnvægi
Kynjahlutföll starfsfólks LOGOS
eru nokkuð jöfn að sögn Helgu.
„Hér starfa ívið fleiri konur þegar
allt er tekið. Við leggjum mikla
áherslu á jafnrétti kynjanna í
ráðningu starfsfólks, þó jafnvægi
hafi ekki enn verið náð á meðal
eigenda stofunnar. Af þeim fjórum
eigendum sem bættust við nýlega
voru tveir karlar og tvær konur.
Viðskiptavinir eru farnir að skoða
kynjahlutfallið í auknum mæli.
Þetta skiptir því máli hvernig
fyrirtækið virkar út á við. Upp-
byggingin á okkar félagsskap er sú
að við erum öll jöfn eigendurnir,
sem býr til annan kúltúr og meiri
slagkraft í hópnum.“ n
Grænni áherslur varða alla, líka fyrirtæki
Helga segist hafa fundið snemma á lögmannsferlinum að hana langaði að
koma inn í mál fyrirtækja fyrr, áður en þau urðu að málum til rannsóknar.
FRÉTTABLAÐIÐ/SIGTRYGGUR ARI
Hjördís Halldórsdóttir, eig-
andi og stjórnarmaður hjá
LOGOS, sérhæfir sig meðal
annars í verkefnum sem
varða tæknimál og þar hafa
mál er varða gervigreind
verið áberandi. Einnig sinnir
hún málum er varða höf-
undarétt og verktakarétt og
er mikið í málflutningi.
„Í laganámi hafði ég alltaf haft
mestan áhuga á lögmennsku og
málflutningi. Þar er skylda að fara
í starfsnám og ég prófaði ýmislegt.
Meðal annars í landbúnaðar-
ráðuneytinu. Ég var staðráðin í
að dvelja þar í einn mánuð því ég
stefndi alltaf á lögmennsku.
Ári eftir útskrift fór ég að vinna
hjá AP lögmönnum sem seinna
mynduðu hluta af LOGOS, þar sem
ég starfa núna. Þrátt fyrir tafir á
leið í lögmennsku lærði ég ýmis-
legt. Í landbúnaðarráðuneytinu
fór yfirmaður minn í leyfi eftir að
ég hafði verið þar í hálft ár. Í fjar-
veru hans var ég sett í stjórnenda-
stöðu og var óvænt komin í djúpu
laugina. Í dag er ég einn af eig-
endum LOGOS og bý meðal annars
að þessari dýrmætu reynslu frá
fyrsta árinu.“
Fjölbreytt starf
„Ísland er lítið land og fólk þarf
yfirleitt að sérhæfa sig á fleiru en
einu ákveðnu sviði. Því fylgir að
vera í málflutningi að fást við mjög
fjölbreytt mál. Einn daginn get ég
verið að flytja ágreiningsmál á sviði
verktakaréttar gegn verkkaupum.
Næsta dag er ég að flytja mál fyrir
fjármálastofnun út af lánasamn-
ingi. Þriðja daginn er ég svo á kafi í
dómsmáli er varðar hugbúnað eða
upplýsingatækni.“
Breitt áhugasvið
„Höfundaréttur, tækni, verktaka-
réttur, málflutningur og kröfu-
réttur heilla mig hvað mest, sem og
allt sem viðkemur gervigreind.
Málflutningurinn finnst mér
hvað áhugaverðastur innan lög-
mennskunnar. Ég er hæstaréttar-
lögmaður, sem og Helga Melkorka.
Allt sem viðkemur tækni á einnig
hug minn allan, í víðum skilningi,
þar með talin lyfjaþróun. Í raun
heillar mig allt sem viðkemur
vísindum, tækni og sköpun.“
Framhaldspróf í tæknimálum
Hjördís var í framhaldsnámi í
lögfræði í Stokkhólmsháskóla
þar sem mikil áhersla er lögð á
þverfaglega þekkingu í lögum og
upplýsingatækni. „Lögfræðingar
sem ætluðu að starfa á tæknisviði
þurftu að bera skynbragð á tækni-
legu hliðina og leysa tæknileg
verkefni samhliða lögfræði-
náminu.“
Allan starfsferilinn hefur Hjör-
dís sinnt tæknimálum, sérstaklega
í hugbúnaði og upplýsingakerfum.
„Það getur verið samningagerð,
ráðgjöf og ágreiningsmál og f leira.
Síðustu ár hef ég komið inn á
ýmislegt sem varðar gervigreind,
og veitt til dæmis lagalega ráðgjöf
um hvernig megi taka ákvarðanir
á grundvelli gervigreindar. Hröð
þróun er í regluverki um gervi-
greind og von er á frekari reglum
frá Evrópusambandinu.“
Höfundarétturinn
„Í náminu lagði ég áherslu á höf-
undarétt og fékk því slík verkefni
þegar ég fór að vinna í lög-
mennsku, eins mál sem tengdust
hugbúnaðargerð. Ég varði fyrstu
tveimur árunum að miklu leyti
í stórt upplýsingatækniverkefni
sem sneri að hugbúnaðargerð og
öðlaðist þekkingu og reynslu á
sviðinu. Höfundarétturinn leiddi
mig því yfir í tæknina hjá AP
lögmönnum og LOGOS hálfu ári
síðar. AP lögmenn höfðu einn-
ig sinnt persónuverndarmálum
frá því tölvulög gengu í gildi. Frá
upphafsdögum lögmennskunnar
hef ég því sinnt persónuverndar-
málum.
Í höfundaréttinum hef ég unnið
verkefni sem tengjast tónlist og
kvikmyndum, og seinni ár tengd-
um sjónvarpi. Margt hefur breyst
með tilkomu streymisþjónusta
og hef ég verið ráðgefandi hvað
varðar höfundarétt og fjölmiðla-
lög í því samhengi. Ég er formaður
Höfundaréttarfélags Íslands og
sit í höfundaréttarnefnd sem er
menntamálaráðherra til ráð-
gjafar. Núna vinnum við að
innleiðingu á DSM-tilskipun sem
snýr að tilskipun um höfunda-
rétt á stafrænum innri markaði.
Tilskipunin var samþykkt innan
Evrópusambandsins 2019 og nú
eru öll Evrópuríki að vinna að því
að innleiða hana í sinn rétt. Þessi
tæknihluti á höfundaréttinum
smellpassar inn í mitt áhugasvið.“
Starf sem hentar öllum
„Enn eru kvenkyns lögmenn í
miklum minnihluta. Það á sér-
staklega við um lögmenn á lög-
mannsstofum. Hlutfallið er betra
hjá fyrirtækjum og opinberum
aðilum. Í eigendahópi LOGOS erum
við fjórar konur eigendur, þótt
karlarnir séu fleiri. Þetta endur-
speglar skiptinguna í stéttinni
eins og hún leggur sig. Þó er fullt
af hæfileikaríkum ungum konum
á þessu sviði sem eiga framtíðina
fyrir sér. Þetta breytist vonandi, en
það gerist kannski ekki alveg nógu
hratt að okkar mati.
Lögmannsstarfið á að geta
hentað öllum, líka fólki sem ber
ábyrgð á fjölskyldum. Dómstólar
og viðskiptavinir hafa mikið um
tíma manns að segja, en þess á milli
er vinnutíminn sveigjanlegur sem
getur hentað fólki með börn.“ n
Allt sem viðkemur vísindum, tækni og sköpun
Höfundarétturinn leiddi Hjördísi út á tæknisviðið þar sem hún fæst meðal
annars við mál á sviði gervigreindar. FRÉTTABLAÐIÐ/SIGTRYGGUR ARI
kynningarblað 49FIMMTUDAGUR 20. janúar 2022 FÉLAG KVENNA Í ATVINNULÍFINU