Fréttablaðið - 20.01.2022, Blaðsíða 103
MYNDLIST
Aðalsteinn Ingólfsson
Sýnishorn af höfundarverki
Dieters Roth í i8
Þýsk-svissneski myndlistarmað-
urinn Dieter Roth, sem var í ára-
raðir öflugur þátttakandi í íslensku
myndlistarlífi, vakti alla tíð blendn-
ar tilfinningar meðal listunnenda. Á
níunda áratug síðustu aldar, þegar
Dieter hafði öðlast víðfrægð, bauðst
Listahátíð á Íslandi til afnota stór
þýsk farandsýning á verkum hans.
Þá lifði enn svo glatt í gamalli andúð
á þeim, að forsvarsmenn hátíðar-
innar afþökkuðu sýninguna. Að því
sögðu held ég að enginn dragi í efa
að Dieter hafi verið með allra fjöl-
hæfustu listamönnum sem hér hafa
búið: listmálari, grafískur hönnuð-
ur, húsgagnahönnuður, grafíklista-
maður, höfundur þrívíddarverka af
ýmsu tagi, framúrskarandi teiknari,
vídeólistamaður, bóklistamaður, og
að auki ljóðskáld, útgefandi og mús-
íkant. Á að minnsta kosti tveimur
þessara sviða, í grafík og bóklist, var
hann fortakslaust meðal leiðandi
aðila á tuttugustu öld.
Í ljósi þessa yfirgripsmikla ævi-
starfs er tæplega hægt að ætlast til
þess að lítil og nett sölusýning sem
Gallerí i8 hefur nú sett upp með
eldri verkum Dieters, gefi fullnægj-
andi mynd af öllu því sem hann tók
sér fyrir hendur. Flest eru verkin
gerð hér á landi og koma úr íslensk-
um einkasöfnum. Engu að síður má,
með góðum vilja, líta á þetta sam-
safn sem eins konar inngang að
margbrotnu höfundarverki Dieters.
Þarna eru hreinar og klárar teikn-
ingar í expressjónískum dúr, ljós-
myndaverk, yfirmáluð grafíkverk,
„af byggðir“ prentgripir á borð við
íslensk póstkort, pappírsverk með
lífrænu ávafi, að minnsta kosti einn
víðfrægur Flúxus-skúlptúr (Kanína
úr kanínuskít og hálmi), geómetrísk
verk með „innbyggðri“ hreyfingu,
eitt verk úr lífrænum úrgangi og
loks endurgerðir barnastólar frá
Kúlu-tímabilinu svokallaða, þegar
Dieter og nokkrir félagar hans ráku
verslun á mótum Bergstaðastrætis
og Skólavörðustígs.
Geómetría rekst á Flúxus
Þessi sýning gefur okkur mikils-
verðar vísbendingar um listsögu-
legan uppruna Dieters. Þroskaár
hans eru sjötti áratugurinn, þegar
tilraunir evrópskra myndlistar-
manna til að skapa tæra og rök-
studda abstraktlist í kjölfar þess
umróts sem síðari heimsstyrjöldin
hafði í för með sér, steytti á mynd-
list uppivöðslusamra andófsmanna
á borð við Ný-dadaista og Flúxara,
en þeir stefndu að hinu gagnstæða,
nefnilega umpólun hefðbundinnar
fagurfræði. Sjálfur byrjar Dieter
sem fulltrúi svissneskrar rök-
hyggju í hvort tveggja grafískri
hönnun og myndlist, aðhyllist um
skeið umbreytanlega geómetríu,
verk sem þróuðust eða tóku breyt-
ingum í ákveðnu ferli á myndfleti,
samanber hreyfilist og optíska list.
Eitt verk þeirrar gerðar (nr. 11) er að
finna í i8. Út úr því þróast síðan bók-
verkin, þar sem hver blaðsíða er í
raun breytileg og hreyfanleg eining.
Fyrstu lífrænu verk Diet ers, þar sem
finna má efnivið eins og súkkulaði,
matarleifar, pylsur, ávexti og fleira,
eru undirseld annars konar hreyf-
ingu, það er náttúrulegri hrörnun
eða niðurbroti efnisins; þau verða
til upp úr 1960 (sjá nr. 6). Upp frá
því er Dieter víða f lokkaður með
Flúxus-listamönnum og öðrum
myndbrjótum. Með þessum lista-
mönnum sýndi hann vissulega, en
rakst alls staðar illa í f lokki.
Sem leiðir okkur að ævisögulega
þættinum, sem er býsna mikil-
vægur þegar Dieter er annars vegar,
því hann er víða samofinn mynd-
verkum hans. Hversu skilmerkilega
sem við tengjum listamanninn rót-
tækum myndlistarhreyfingum úti
í Evrópu, þá er myndlist hans oftar
en ekki viðbrögð við margháttuðum
tilvistarlegum vanda hans sjálfs. Til
að mynda er eitt helsta einkenni á
gjörvallri myndlist Dieters, hve oft
hann dregur eigin persónu, eins
konar skrípaútgáfur af sjálfum sér,
svo og hluti úr eigin eigu eða nær-
umhverfi, inn í myndir sínar. Þetta
sjálf er fastagestur í teikningum
hans, grafík og síðari verkum með
blandaðri tækni. Ljósmyndir af
honum sjálfum bera einnig uppi
plakötin fyrir farandsýningu hans
1972-74, sem finna má á sýningunni
í i8.
Þverlyndið var lykillinn
Án þess að velta sér um of upp úr
Freud, má rekja margt af því sem
Dieter glímdi við í verkum sínum til
atburða og aðstæðna á æskuheimili
hans í Hannover. Sem barn upplifði
hann öryggisleysi heima og heiman,
bæði loftárásir bandamanna og til-
finningalega vanrækslu, jafnvel
harðneskju, foreldra sinna. Hann
óx upp ofurviðkvæmur, og viðskipti
hans við áhrifamenn, í daglegu lífi,
í listum og í fræðasamfélaginu, ein-
kenndust lengi af blöndu af auð-
mýkt, óöryggi og árásarhneigð.
Á síðari árum enduðu samskipti
Dieters við milliliði myndlistar-
senunnar: gallerista, safnafólk og
safnara, jafnvel starfsbræður, yfir-
leitt með ósköpum. Þegar frá liðu
stundir urðu þau samskipti, að
viðbættri áfengisneyslu, örugglega
til þess að magna upp með honum
bölsýni og vantrú á mannlegt eðli.
Sem litaði síðan afstöðu hans til
listarinnar. Dieter hafði fyrir reglu
að andæfa, setja sig upp á móti við-
teknum viðhorfum, eða eins og
hann sagði sjálfur: „Þegar mér var
sagt að gera eitthvað frá A til Ö, gerði
ég hið gagnstæða“. Kannski er ein-
mitt þverlyndi Dieters lykillinn að
frjórri uppáfinningasemi hans,
Verk sín skapaði Dieter því þvert
á allar kennisetningar og viðtekin
viðhorf, oft í blóra við meint tak-
mörk þess miðils sem hann var
með undir höndum hverju sinni.
Sem kennari ætlaðist hann til að
nemendur sínir tækjust á við hið
ómögulega, byggðu skúlptúra úr
orðum, þrykktu grafíkmyndir eftir
kaffibrauðinu sínu og settu saman
bókverk úr bíldekkjum. Enda fækk-
aði nemendum eftir því sem leið á
kennslu hans. En þeir sem eftir sátu
urðu aldrei samir.
Þessi aðferðafræði, ef hægt er að
nota það nafn yfir vinnubrögð Diet-
ers, opnaði á f leiri leiðir til mynd-
listartjáningar en menn höfðu áður
kynnst. Um leið var hún atlaga að
öllum tilraunum til að setja þess-
ari tjáningu mörk. Að því leyti var
Dieter sennilega einn af helstu guð-
feðrum þeirrar þróunar sem átt
hefur sér stað í vestrænni myndlist
á undanförnum áratugum. n
Spægipylsa með fiturönd
Sýningin á verkum Dieters Roth í i8 stendur til 29. janúar. FRÉTTABLAÐIÐ/ANTON BRINK
Þessi sýning gefur okkur mikilsverðar vísbendingar um listsögulegan upp-
runa Dieters, segir Aðalsteinn Ingólfsson listfræðingur.
Verk sín skapaði Dieter
því þvert á allar kenni-
setningar og viðtekin
viðhorf, oft í blóra við
meint takmörk þess
miðils sem hann var
með undir höndum
hverju sinni.
FIMMTUDAGUR 20. janúar 2022 Menning 23FRÉTTABLAÐIÐ