Andvari - 01.01.2014, Blaðsíða 151
andvari
ÚR POKAHORNI POES
149
anum eins og fram kemur í íslenska orðinu, „móðursýki“. í síðustu málsgrein
frumtexans er talað um móðursýkishlátur listamannsins, „hysterical laugh“,
en í íslensku gerðinni er hann orðinn að „kuldahlátri“ sem verður að teljast
misvísandi þýðing.
Og enn halda Poe-þýðingar áfram að birtast, því árið eftir kemur sagan
„Svarti kötturinn" í blaðinu íslandi (8., 18. og 29. mars og 12. apríl 1898);
skammstafað nafn þýðanda er IG og þýðingin var endurbirt í bókinni Sjö
sögur árið 1899. Þetta er ein af morðsögum Poes. „Á æskuárum mínum var
mjer viðbrugðið fyrir góðlyndi og mannúð“ - svo lætur sögumaður um mælt
í byrjun - „og svo kvað jafnvel rammt að viðkvæmni minni, að leikbræður
mínir gerðu háð að mjer.“ Þetta lundarfar kann ekki góðri lukku að stýra
hjá Poe, enda breytist það og sögumaður endar á að drepa heimilisköttinn.
Hann fær sér annan mjög líkan en fær smám saman einnig mikinn viðbjóð
á honum. Þegar eiginkonan kemur í veg fyrir að hann drepi köttinn beinist
öxi hans að henni og hann fær þá snilldarhugmynd að múra líkið inn í kjall-
aravegginn. Kötturinn virðist hins vegar hafa sloppið, sem reynist bæði rétt og
rangt, eins og allir muna sem lesið hafa þessa sögu.
Eftir því sem ég kemst næst hefur frægasta morðsaga Poes, „Murders in the
Rue Morgue“ (Morðin í Líkhúsgötu) aldrei verið birt í íslenskri gerð sem kall-
ast getur þýðing í hefðbundnum skilningi. Hér leysir einkaspæjarinn Auguste
Dupin dularfulla gátu; tvær konur hafa verið myrtar en vart virðist þó nokkur
mannvera eiga þar í hlut - þótt beitt hafi verið hnífi. Enda kemur í ljós að
morðinginn er sterkbyggður orangútanapi sem heillast hefur af því hvernig
eigandinn hans, sjómaður nokkur, notar hníf til að raka sig. Apinn stingur af
með hnífinn. Þetta er hrottaleg saga, en það er í henni einhver yfirkeyrður,
gróteskur þráður sem tengist útmálun hins dýrslega. Þessi þráður hefur heill-
að skáldið Benedikt Gröndal - sem þó kveðst einungis hafa heyrt söguna í
lauslegri endursögn - því hann endurspinnur hann með tilþrifum í hinum
sérstæða ljóðabálki sínum „Gamni og alvöru“, sem birtist árið 1900. Þarna
ægir ýmsu saman en síðasti fjórðungur bálksins er lagður undir apamorðin
(sem af einhverjum ástæðum eru látin eiga sér stað í Lissabon en ekki París)
- og sagan er sögð frá sjónarhóli eigandans, sjómannsins. Hér eigum við þá,
þrátt fyrir allt, einskonar þýðingu, í ljóðformi, á hluta þessarar sögu eftir Poe.
Sjómaðurinn eltir dýrið sitt, sér apann fara inn um glugga „á fimmta sal“, og
kemst í sjónfæri við atburðarásina:38
En apanum fór þetta loksins að leiðast,
og leizt eins og kerlíngin mundi sér reiðast,
þá fauk líka nokkuð í höfuðið hans:
dansandi veifði hann hnífnum í hendi,
og hlæjandi á kerlíngarbarkann hann sendi -
svo endaði loks þessi einstaki dans.