Andvari - 01.01.2014, Page 157
ANDVARI
ÚR POKAHORNI POES
155
Það rétt hjá Halldóri að þetta er ólgandi og spennandi ævintýrasaga og hún má
vissulega kallast skemmtisaga, en það er hæpið að segja að ekkert annað vaki
fyrir höfundinum. Þegar sagan kom löngu síðar út aftur á íslensku, þá óstytt í
þýðingu Atla Magnússonar árið 2003, var annars vegar haldið í ævintýraheit-
ið - nú heitir hún Ævintýri Artúrs Gordons Pym - en aftan á kápunni er hins
vegar vitnað til orða Jorge Luis Borges um að þetta sé: „Stórbrotnasta verk
Edgars Allans Poe“. Hvort sem fólk er sammála Borges um það eða ekki, má
til sanns vegar færa, eins og segir í káputextanum, að í þessari sögu, eins og
ýmsum öðrum verkum, kafi Poe í „hið myrka og dulúðuga í mannshuganum",
jafnvel þegar greint er frá spennuþrunginni atburðarás á heljarslóð. Það eru
sterkir tilvistarlegir og táknrænir þræðir í gegnum alla söguna, sem blasa við
okkur í lokin, einmitt vegna þess hvernig Poe lýkur ferðalaginu í miðju kafi,
ef svo má segja. Þrír menn á opnum báti, tveir lifandi og einn í andarslitr-
unum, halda æ lengra í suður uns þeir bruna „í fang fossins“ og fyrir augum
þeirra rís upp ofurvaxin mannvera, húðlitur hennar ,Jullkomlega hvítur eins
og snjórinn“50 Fyrir þessum höfundi vakir eitthvað sem ekki blasir við og er
kannski enn óskrifað.
Frá og með fjórða áratugnum er óhætt að segja að Poe njóti umtalsverðra
vinsælda á íslandi sem endast fram eftir öldinni. Að vísu birtist áhuginn á
honum iðulega í síendurteknum sögubrotum af lífi hans sjálfs - oft er sem sú
saga búi yfir meira aðdráttarafli en sögurnar er hann samdi. Slík umfjöllun í
íslenskum blöðum og tímaritum - sem nú er auðvelt að finna í gagnagrunn-
inum Tímarit.is (timarit.is) - er augljóslega oft soðin upp úr erlendum ritum.
Stundum eru einnig beinlínis þýddar greinar um Poe eftir erlenda höfunda, en
þær reynast einnig leggja áherslu á æviferil Poes fremur en að rýnt sé að ráði
í skáldverk hans.51 Að vísu er ekki erfitt að skilja að tengsl lífs og skáldskapar
skapi aðdráttarafl í tilviki Poes og leitað sé skýringa í „svefnkamersi“ hans,
svo vitnað sé til prósaljóðs eftir Arna Ibsen um Poe, en þar kemur ljóðmæl-
andi að auðu fleti í húsakynnum skáldsins; hins vegar tekur hann eftir upp-
stoppuðum hrafni og þögn. Það er sem úr þögninni mótist um stund mann-
vera í fletinu. Ljóðmælandi snýr aftur niður stigann, „nánast einstigi. Ofan
hann kemst enginn nema í hnipri á fjórum fótum.“52
Staðir í tilverunni
En eftir slíkar ferðir má alltaf snúa sér aftur að skáldverkunum og beina
spurningum til þeirra. Hér að framan hef ég rætt um íslenskar þýðingar á ljóð-
um Poes, skáldsögunni og smásögunum sem birtust í íslenskri gerð á fyrstu
tveimur aldarfjórðungunum eftir að Jón Ólafsson tók á móti Poe á Eskifirði.
Engar íslenskar þýðingar hef ég fundið á ritgerðum og pistlum Poes um bók-