Heilbrigt líf - 01.06.1947, Síða 59
lögðum 11 ofar og aðra 11 neðar við fætur hinna; breiddum
svo hreint, létt segl yfir þessa hryggilegu hvílu — 22 föla,
snyrtilega, sjórekna menn, sem virtust sofa þarna í
brekkunni.
Ég hafði tal af eina manninum, sem af hafði komizt.
Ég lærði undirstöðuatriðin í frönsku í skóla og fyrstu árin
mín á Vopnafirði leituðu margir franskir sjómenn til mín,
því að þeir fiskuðu á miðunum út af Langanesi á sumrin;
franskar og færeyskar skútur voru þar í tugatali. Fyrir
vikið gat ég fleytt mér ofurlítið í frönsku og nú fékk ég
að vita, að hann kenndi sér einskis meins, var ekki einu
sinni kvefaður. En hann var alvarlegur og þungbúinn á
svip og syrgði vitanlega félaga sína. Hann sagði okkur frá
því, hvernig þetta hefði að borið. Þeir höfðu snúið við
vegna óveðursins og ætlað inn til Reykjavíkur aftur, en
villzt á vitaljósum og tekið skakka stefnu í myrkrinu;
ekki ráðið við neitt vegna hamfara náttúrunnar og ekki
vitað af fyrri en skipið steytti á skeri og rakst á klettinn,
sem braut skipið og svipti þá leið til bjargar. Aðeins máfur-
inn, sem dr. Charcot hleypti úr búrinu, gat sveiflað sér í
land. Brimið skolaði skipshöfninni í sjóinn smátt og smátt,
bátarnir brotnuðu og sukku, og engum varð lengra lífs
auðið nema þessum eina manni, eins og áður er sagt. Hann
ráfaði nú um hlaðið í Straumfirði í buxum, sem voru alltof
víðar honum og treyju, sem náði niður á mitt læri. Það
var verið að þurrka fötin hans. Hann virtist ekki hugsa
um, hvernig hann væri klæddur; hann leit á öldurnar og
klettinn, þar sem skipsflakið sást nú ekki lengur og við
og við renndi hann augunum upp í brekkuna, þar sem
brúnleita seglið huldi félagana. Við fórum inn baðstofu og
borðuðum miðdagsmat, okkur líkaði vel dilkakjötið, en
rúgbrauð vildi Frakkinn ekki; það sagðist hann aldrei hafa
smakkað.
Þegar líða tók á daginn, komu þeir frá Reykjavík,
Heilbrigt líf
57