Skírnir - 01.01.1915, Side 151
Æskuminningar.
151
Mesta undrun og aðdáun vakti himininn hjá mér,
með sólinni, tunglinu og öllum stjörnunum. Ekki man eg
•eftir að eg gerði mér neina hugmynd um úr hverju
himininn sjálfur væri, en sólin hélt eg að væri lampi guðs,
og stjörnurnar kertin; tunglið hélt eg að væri ákaflega
stór »týra«, sem guð hefði á nóttunni til þess að þurfa
eigi að láta loga altaf á lampanum.
Himininn hélt eg að næði ofan á fjöllin er luktu
sjóndeildarhringinn, og væri festur við þau. Þóttist eg
vita að eigi væri hægt að vera þar nema á fjórum fót-
um og gætti nákvæmlega að, hvort eigi væru buxurnar á
smalamönnunum í sundur á hnjánum er þeir komu heim
frá smalamenskustyrkti það trú mína að svo var oft,
því fjalllendi var mikið að smala, bratt með eggjagrjóti.
Ur vindinum urðu mér engin vandræði.
Fyrir neðan túnið var uppspretta lítil, eða brunnur,
sem kallaður var »Hrómundarbrunnur«. Var mér sagt,
að þar hefði áður búið karl, sem Hrómundur hefði
heitið.
Einu sinni var eg að ólátast þar hjá, kom þá snörp
vindhviða og féll eg í brunninn. Bjargaðist eg með naum-
indum upp úr. Skildi eg þá vel hvernig í öllu lá, að
Hrómundur hafði sent vindinn til að hegna mér fyrir
ólætin.
Kom síðan vindur allur frá Hrómundi, og fanst mér
falla saman óþektarköstin í mér og illviðrin og storm-
arnir; og var ærið vindasamt. Koðnaði eg oft þegar verið
var að tala um að hey hefði fokið, eða annar skaði orðið
af völdum vindsins, því þá taldi eg víst að eitt óþektar-
kastið í mér væri nýafstaðið og eg því orsök í öllum
skemdunum.
Skamt fyrir neðan bæinn var vatn og rann í það
lækur, sem féll rétt hjá túninu. Þóttist eg vita að vatn-
ið væri myndað af honum, en annað átti eg bágt með að
skilja og það var, að aldrei hækkaði í vatninu þó lækur-
inn rynni altaf í það. Talaði eg um þetta við leikbróður
minn, frá næsta bæ, og beiddi hann úrlausnar.