Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 01.01.1967, Síða 8
12
ÁRBÓK FORNLEIFAFÉLAGSINS
er hann 4,5 sm, og efst þar sem sér til stofnsins greinilega — og þar
hefur hann verið höggvinn af — 123 sm frá neðri enda, er hún aðeins
3,5 sm. Af þessum málum sést gjörla, hvernig stofninn eða spíran 4
mjókkar upp eftir, en þess ber að geta, að hún er alls staðar ögn
breiðari við grunninn en efst, vegna þess að brúnir eru skáhallt
sniðnar.
Nú er þess að geta, að fram með báðum brúnum stofnsins er mjög
greinileg strikun (5. mynd). Hún er þannig, að tvö strik ganga sam-
hliða með 1,6 sm millibili, en milli þeirra er grunn hvolfkíling. Þetta
5. mynd. Þverskurður til aö sýna strikun á Hólafjölinni og
einni af Möörufellsfjölunum. — Section showing moul-
dings on the edges of the Hólar panel and. (below) one
of the Möörufell panels.
er afar skýrt langt upp eftir, meðan stofninn er nægilega breiður, en
strikunin riðlast þegar stofninn er orðinn svo mjór, að ekki er pláss
fyrir hana á báðum brúnum. Þar sem sést til strikunarinnar efst er
hún því orðin óskýr, og hefur líklega alveg horfið efst, þótt nú vanti
þar á. Ekki er unnt að sjá, hversu langt upp eftir stofninn hefur náð
í öndverðu, en sennilega hefur hann ekki náð ýkja miklu lengra en
nú sést, og alls engin merki eru sjáanleg um að á honum hafi verið
neitt toppmunstur. Merki um það kynnu að hafa verið skafin eða
hefluð af, en sökum þess að stofninn mjókkar jafnt og þétt alla leið
upp eftir, er ólíklegt, að hann hafi borið toppmunstur, og hitt líklegra,
að hann hafi endað í oddi efst án nokkurra hliðargreina. Ef hann
hefði borið toppmunstur, væri líklegt að hann hefði hætt að dragast
að sér, þegar svo langt var komið upp eftir og hefði jafnvel ögn
breikkað aftur, og byggist þessi ályktun að verulegu leyti á saman-
burði við Möðrufellsfjalir, sem sumar enda með einföldum oddi efst,
en aðrar hafa toppmunstur. Sá samanburður leiðir greinilega til
þeirrar niðurstöðu, áð þessi fjöl hafi ekkert toppmunstur haft.