Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 01.01.1967, Side 28
32
ÁRBÓK FORNLEIFAFÉLAGSINS
arinn spaki Þorvaldsson og Þorkell fullspakur, er nam Njarðvík)
er svo lítið kunnugt, að engar líkur verða að því leiddar, hversvegna
þeir hlutu viðurnefnið.
Þáð má telja líklegt, að lögspeki hafi ráðið viðurnefni Þorleifs
ins spaka Hörða-Kárasonar, er samdi Úlfljótslög með Úlfljóti, Gunn-
ars lögsögumanns og trúlega einnig Bjarna ins spaka Þorsteinssonar,
afa Markúss lögsögumanns Skeggjasonar. En athyglisvert er, að
lögsögumennirnir Styrmir Kársson og Snorri Sturluson eru viður-
nefndir inn fróði, en ekki inn spaki.
Gestur inn spaki Oddleifsson „lagði ráð til“, að Völu-Steini „bættist
helstríð, er hann bar um Ögmund son sinn“, segir í Landnámu (s.
171). Gestur yrkir þá upphaf Ögmundardrápu, að sögn Landnámu, en
í Snorra-Eddu er Völu-Steinn talinn höfundur drápunnar, og má
hvorttveggja vera rétt. Ljótur inn spaki Þorgrímsson biður Gest um
að segja sér forlög sín og sonar síns, og gerir hann það, en ekki kem-
ur neitt fram í viðskiptum þeirra Gests, sem gefur til kynna, hvers-
vegna Ljótur hlaut viðurnefni sitt.
Þorsteinn surtur og inn spaki fann sumarauka, sem er ærið tilefni
til að hljóta viðurnefnið inn spaki, hafi merkingin í því verið nátt-
úrugreindur eða vitur, en á það ber einnig að líta, að hann var sonur
Hallsteins Þorskafjarðargoða Þórólfssonar Mostrarskeggs og alinn
upp hjá þeim síðarnefnda, en báðir voru þeir Hallur og Þórólfur
miklir Þórsdýrkendur. Þorsteinn má því hafa öðlazt góða kunnáttu
í heiðnum fræðum.
Þuríður in spaka bjó í Hörgsholti og var dóttir Tungu-Odds goða.
Þórdís dóttir Þuríðar var gift Guðlaugi inum auðga, syni Þormóðar
goða, en Jófríði systur Þuríðar átti Þorfinnur Selþórisson. Guðlaug-
ur „skoraði á Þorfinn til landa og bauð honum hólmgöngu. Þeir féllu
báðir á hólmi, en Þuríður græddi þá báða og sætti þá“ (Landnáma
s. 147). Það fer ekki hjá því, að Þuríður hefur kunnað margt fyrir
sér og verið handgengin heiðnum trúarsiðum.
Um Þuríði ina spöku Snorradóttur goða segir í Islendingabók „er
bæði var margspök og óljúgfróð", og í Flateyjarannál er hún kölluð
spákona.
Speki þessara fjögurra síðasttöldu manna er eðlilegast að álíta,
að hafi verið fólgin í þekkingu á heiðnum fræðum og því, er talið var
að gerði menn forspáa, og í sama flokki verður Finni inn draumspaki.
Hvort lögvizkan ein hafi nægt til að viðurnefnið inn spalci festist
við menn, verður ekki ráðið af þeim þremur dæmum, sem nefnd voru,
en hafi svo verið, má merkilegt heita, að Úlfljótur skuli ekki hafa