Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 01.01.1967, Blaðsíða 87
ÖNGULSÁ — ÚTNYRÐINGSSTAÐIR
91
en historisk-topografisk beskrivelse af Island (II. bindi, bls. 238—239)
og Jón Jóhannesson í útgáfu sinni af Austfirðinga sögum (íslenzk
fornrit XI, bls. 143). Allir segja þeir, séra Sigurður, Kálund og Jón,
að talið sé síðar í sögunni, að Hjarrandi hafi búið að Höfða. Mér
virðist hér vera um misskilning að ræða. Þetta er hvergi sagt í sögunni,
aðeins það að Helgi Ásbjarnarson hafi komið að Höfða og beðið þá
Hjarranda og Kára að fara með sér í aðförina að Helga Droplaugar-
syni. Þeir Hjarrandi og Kári munu hafa búið hvor á sínum bæ, en
skammt hefur verið á milli bæjanna. Hefur Kári þá búið á Höfða,
en Hjarrandi á Öngulsá, eins og sagan segir. Hinsvegar er sagt frá
því í Droplaugarsona sögu, eins og áður getur, að Kári var borinn á
skjöldum heim að Höfða og heygður þar. Skammt fyrir sunnan Höfða
er móaholt, sem nefnt er Kárahaugur, og segja munnmæli, að þar
hafi Kári verið grafinn.
Séra Sigurður telur ekki ólíklegt, að Höfðaá hafi áður heitið Öng-
ulsá, og samþykkir Jón Jóhannesson það. Ég álít, að allt frá því bær
var reistur að Höfða, hafi neðri hluti árinnar verið nefndur Höfðaá.
Víða á Héraði skiptir sama vatnsfallið um nafn, þannig að efri hlutinn
heitir öðru nafni en neðri hlutinn. Sjálft Lagarfljót ber ekki þáð nafn,
fyrr en komið er utarlega í Fljótsdal, ofar nefnist það Jökulsá.1 Gilsá
kemur úr Gilsárdal og fellur út Eiðaþinghá, en skiptir síðan um nafn
og heitir Selfljót út alla Hjaltastaðaþinghá og til sjávar. Smáár og
lækir á Völlum skipta og sums staðar um heiti á sama hátt. Tveir
lækir, er nefndir eru Stekkjalækir, falla ofan úr fjalli og sameinast
skammt fyrir ofan bæinn Útnyrðingsstaði, og eru þá nefndir Á. Beint
út undan bænum á Útnyrðingsstöðum fellur á þessi í stórum öngul-
mynduðum boga. Landspilda sú, sem er innan bogans, er nefnd Tangi.
Eftir að áin fellur niður frá Tanganum og niður í Lagarfljót, er hún
1 Fyrir ofan brúna á Lagarfljóti og allt upp í Fljótsdal er óslitinn hylur. Er hann
lang-lengsti, breiðasti og dýpsti hylur, sem til er í nokkru vatnsfalli hér á landi. Þar
fyrir ofan heitir vatnsfallið Jökulsá í Fljótsdal, allt frá upptökum sinum í Vatna-
jökli, en frá efri mörkum hylsins og allt til sjávar Lagarfljót.
Nú á síðari árum er i kennslubókum í landafræði farið að nefna efri hluta Lagar-
fljóts Lög (eða Löginn) og telja hann meðal stöðuvatna. En frá þvi að á Lagar-
fljót er minnzt í fornritum vorum og fram á þessa öld var nafnið ,,Lögur“ óþekkt;
á þessum hluta fljótsins. Það er hvergi notað, hvorki í ritum né á landabréfum.
Fyrst sást það á prenti milli sviga á landabréfum herforingjaráðsins danska, og
þykir mér líklegt, að sami maður hafi komið þvi þar inn og varð þess valdandi,
að skipt var um nafn á Fossinum í Lagarfljóti, en svo var hann áður nefndur bæði
í ræðum og ritum. Þessi maður var áhrifamikill aðkomumaður og bjó lengi á einni
mestu og beztu jörð Héraðsins. Ilann sat um skeið í stjórn Eimskipafélags Islands
og kom því til leiðar, að einu af skipum þess var gefið nafnið Lagarfoss. Eftir það
var farið að kalla „Fossinn í Lagarfljóti" sama nafni og skipið.