Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 01.01.1967, Side 88
92
ÁRBÓK FORNLEIFAFÉLAGSINS
jafnan nefnd Höfðaá. Líklegt er, að efri hluti árinnar hafi í fornöld
veri'ð nefndur Öngulsá eftir hinum öngulmyndaða boga, sem er á
henni. Og bær sá, er nú heitir Útnyrðingsstaðir, mun upphaflega hafa
verið nefndur eftir ánni. Á milli bæja þeirra bræðra, Hjarranda og
Kára, hefur verið aðeins 10 mínútna gangur.
Vegurinn yfir Hálsinn, en svo nefnist fjallið á milli Út-Valla og
Eyvindarárdals, og til Dalanna svokölluðu mun um margar aldir og
líklega allt frá fornöld hafa legið út og upp frá Útnyrðingsstöðum,
og er ekki ólíklegt, að Helgi Ásbjarnarson hafi farið þá leið með lið
sitt í fyrirsátina við Helga Droplaugarson. Er og ekki ólíklegt, að
hann hafi komið heim á báða bæina, Höfða og Öngulsá, þótt í munn-
mælasögnunum hafi Höfði aðeins verið nefndur. Hann gat líka hafa
komið aðeins að Öngulsá og sent eftir Kára að Höfða, en það skolazt
til í munnmælunum.
Afi minn, Óli ísleifsson, og faðir minn, Jón Ólason, bjuggu öll
sín búskaparár á Útnyrðingsstöðum, og þar var faðir minn fæddur
árið 1837. Sagði hann mér, að í æsku sinni hefði hann heyrt það
fullyrt, að Útnyrðingsstaðir hefðu áður heitið öngulsá. En hvernig
á nafnbreytingunni stendur, veit enginn. Þeir, sem ekki þekkja til,
munu halda, að bærinn standi áveðurs móti útnorðri, en svo er alls
ekki. Hann stendur sunnan í allstórri hæð, er rís dálítið upp móti út-
norðri, og er því fremur í vari fyrir útnorðanátt en áveðurs.
Finnur Jónsson prófessor telur í ritgerð sinni „Bæjanöfn á ís-
landi,“ sem út kom í IV. bindi af Safni til sögu íslands, að bærinn
Útnyrðingsstaðir liafi hlotið nafngift sína af vindi eða viðurnefni.
Líklegasta ástæðan fyrir nafnbreytingunni virðist mér sú, að bærinn
hafi lagzt í eyði einhvern tíma á miðöldum vegna drepsótta svo sem
Svartadauða. Hafi Öngulsá þá ásamt Keldhólum, sem er lítil jörð rétt
innan við Útnyrðingsstaði, verið lögð undir stórbýlið Ketilsstaði,
enda eiga Ketilsstaðir enn land neðan við báða þessa bæi meðfram
Lagarfljóti út að Höfðaá. í Johnsens-jarðatali, eru bæði Útnyrðings-
staðir og Keldhólar taldar hjáleigur undan Ketilsstöðum. Hugsanlegt
er, að Ketilsstaðabóndi hafi haft beitarhús þar sem áður var bærinn
Öngulsá. Þau gætu hafa staðið meir áveðurs en þar sem bærinn
hefur verið á síðari öldum og því verið kölluð Útnyrðingsstaðir. Engin
vissa er heldur fyrir því, að hinn forni bær á Öngulsá, eða þegar
ábúð hófst þar aftur og bær var reistur að nýju, hafi verið á sama
stað og bærinn er nú. Bærinn gat hafa staðið uppi á hóli, sem nú er
kallaður Norðurkofahóll, en hann er nokkru hærri en núverandi bæj-
arhóll, og þaðan er meira og fegurra útsýni en frá bæjarhólnum. Hafi