Ársrit Ræktunarfélags Norðurlands - 01.01.1983, Page 84
Lítið er vitað um sanngildi þessarar frægu sögu, sem ber
óneitanlega mjög keim ævintýris, með fast mótuðum sagn-
minnum, er koma fyrir í ýmsum öðrum sögum af marmennl-
um og sækúm, eins og nánar er greint í sambandi við næstu
sögur.
2) Sœkýrnar í Vogum, Vatnsleysuströnd, (Gullbringusýslu).
Þjóðsögur Jóns Árnasonar III. bindi (3. útg.), bls. 127-128
(„Frá marbendli“), eftir Guðnýju Einarsdóttur (Akureyri).
Þetta er efnislega mjög samsvarandi saga og nr. 1, nema hér
er það marbendill (marmennill) sem dreginn er. Fyrri hluti
sögunnar er hið alkunna ævintýri um marbendil sem hlær
þegar bóndi kemur í land og kyssir konu sína en sparkar í
hundinn sinn, rasar um þúfu og formælir henni o.s.frv. Er það
þekkt í mörgum gerðum og oftast án tengsla við sækýr. Þegar
bóndi flytur marbendil út á miðið þar sem hann var dreginn,
segir hann honum ástæðuna fyrir hlátri sínum (hundurinn
elskaði hann, konan var honum ótrú, og undir þúfunni var
fólginn fjársjóður), en sagan á að skýra orðtakið „þá hló
marbendill“.
Síðari hlutinn greinir frá því að sjö kýr sægráar gengu á land í Vogum og
höfðu blöðru fyrir nösum. Gat bóndinn sprengt blöðruna á einni þeirra og
náð henni. „Þóttist hann þá skilja, að kýr þessar hefði marbendill sent sér í
þakkarskyni fyrir lausn sína. Þessi kýr hefur verið hinn mesti dánumanns-
gripur, sem á Island hefur komið; æxlaðist af henni mikið kúakyn, sem víða
hefur dreifst um land og er allt grátt að lit og kallað sækúakyn.“
Sagt er að Vogarnir hafi af þessum atburði verið kallaðir Kvíguvogar, en
svo eru þeir nefndir í Landnámu, þótt nú sé það týnt. Má skilja af þessu að
sagan sé mjög forn.
3 ) Sænautið á Bakka, í Norðfirði. Sbr. söguna „Uxavogur“ í
Þjóðsögum Þorsteins Erlingssonar, Rvík. 1954, bls. 276-279.
Skráð af Benedikt Sveinssyni frá Borgareyri í Mjóafirði
(1846-1931).
Bakki hefur bær heitið og var yztur bæja á norðurströnd
Norðfjarðar, hjáleiga frá Nesi og stóð við Bakkalæk, skammt
frá núverandi kirkjugarði Neskaupstaðar.
Niður undan Bakka gengur dálítill klettatangi fram í sjó-
86