Andvari - 01.01.1998, Page 62
60
PÁLL VALSSON
ANDVARI
hálfu Tómasar sem orða má svo: í ljósi þess hvernig við ráðumst á hefðina
og valdamenn verður íslenskt alþýðufólk að fá að vita að þrátt fyrir allt sé
með Fjölni og Sunnanpóstinum einhver menningarlegur samnefnari.
Tómas vill ekki ganga of langt, því það spilli fyrir þeim. Það er þetta sem
vakir fyrir Tómasi, sem manna best skynjaði þá andúð sem skrif Fjölnis
höfðu vakið. Tómas áttar sig á því að þeir gætu bæði slegið sér upp með því
að birta lof um Breiðfjörð og um leið hafið sig upp á æðra plan, eða með
orðum Tómasar sjálfs: „hans iðrun yfir flasi sínu að kveða um okkur, hefði
orðið enn stærri ef þetta hefði komið á prent.“6 Við yrðum menn að meiri,
segir Tómas, með því að sýna að við leyfðum Breiðfjörð að eiga sitt.
I þessu máli kringum Sigurð Breiðfjörð kristallast vandi Fjölnis sem
menningartímarits og því má halda fram að sá klofningur sem hér verður
sé upphafið að endinum. Það er ljóst að Tómas Sæmundsson hefur allt aðr-
ar hugmyndir um ritstjórnarstefnu en Jónas og Konráð. Hann vill hefja sig
upp yfir deilurnar, hrósa rímum Sigurðar, bæði vegna þess að honum þótti
þær bera af öðrum, en líka til þess að sýna reisn. Fjölnismenn eigi ekki að
erfa það þótt einhverjir menn séu að hæðast að þeim og yrkja níð um þá.
Og þetta vindur upp á sig í deilunum við Sunnanpóstinn þar sem Konráð
Gíslason fer offari, og Tómas skrifar harðort bréf þar sem hann mótmælir
því að Fjölnir sé gerður að „stríðsriti“. Allt er þetta misjafnlega kunn saga,