Andvari - 01.01.1998, Page 138
136
JÓN VIÐAR JÓNSSON
ANDVARI
húsinu við Tjömina og í erindi, sem hann flutti á aðalfundi Hins íslenska
bókmenntafélags árið 1979 og prentað var í Skírni árið eftir.12 í Leikhúsinu
við Tjörnina er Sveinn að vísu varfærinn í orðalagi, segir t.d. aðeins að
Indriði hafi „verið kallaður fyrsti leikstjóri íslendinga í nútímamerkingu
þess orðs“ (leturbreyting mín - J.V.J.), nefnir áhrif frá Þýskalandsdvölinni
og lýsir síðan almennum einkennum á verkefnavali hans. I fyrirlestrinum
gengur hann nokkru lengra í að skilgreina einkennin á leikstjórn Indriða
og segir m.a. að hann hafi „drukkið of mikið af bikar expressionismans og
kynnst of vel þeirri ’retheatralisierung’ eða endurslípun á tjáningarþrótti
leiksviðsins, sem Reinhardt beitti sér fyrir“ til að geta sætt sig við tak-
markanir raunsæisstefnunnar; það hafi verið „seiðmagn hins óræða“ sem
komið hafi á flug þeim sýningum sem hann varð frægastur fyrir.13 Sveinn,
sem sá auðvitað ýmsar af seinni sýningum Indriða, kveðst alltaf hafa verið
þeirrar skoðunar, að „fjöldaleikstjórn“ lægi ekki fyrir honum, styrkur hans
hafi fremur legið í „ákefð hins nálæga“.
Á því leikur út af fyrir sig enginn vafi, að Indriði varð, a.m.k. með tíð og
tíma, ágætur leikstjóri. Hann þótti þó alla tíð nokkuð mistækur, enda ekki
fagmaður í strangasta skilningi, heldur stundaði hann sitt borgaralega starf
í íslandsbanka og síðar Útvegsbankanum frá unga aldri til 1950, þegar hann
réðst til Þjóðleikhússins, þar sem hann starfaði til dauðadags. Það er býsna
almenn skoðun meðal þeirra, sem muna sýningar hans og unnu með hon-
um, að honum hafi hentað betur að vinna með einstökum leikurum en
gæða sýningar sínar heillegri áferð. Hann hafi verið einstaklega næmur fyr-
ir leikrænum gáfum hjá ungu og óreyndu fólki og laginn við að kalla fram
hið besta í fari leikenda, en átt til að hirða síður um samræmingu og fágun
hinna ólíku þátta sviðsetningarinnar. í þessu sambandi má ekki líta fram
hjá þeirri staðreynd, að Indriði hafði löngum þann hátt á að leika sjálfur
stór hlutverk í sýningum sínum. Þetta var sjálfsagt að einhverju leyti óhjá-
kvæmilegt í manneklunni hjá Leikfélagi Reykjavíkur, en ekki jafnheppilegt
eftir að flutt var í Þjóðleikhúsið. Þá hafa menn honum nákunnugir tjáð
mér, að hann hafi jafnan fylgst mjög vel með leiklistarlífi nágrannaland-
anna, m.a. með lestri fagtímarita, þó að hann ferðaðist sjaldan til útlanda.
Þórunn er sannfærð um, að með komu Indriða hafi hafist „ný uppbygg-
ing í leikstjórn og leikstfl11.14 Hún vitnar til leikara, sem hann vann með, og
töldu hann „jafnvel hæfileikamesta leikstjóra þessa tíma og hafa mótað sig
mest.“15 Hann hafi menntast af „reynslunni og markvissu sjálfsnámi“ og
ungu leikararnir notið þess „innilega að skynja ný vinnubrögð“ með hon-
um. Hann hafi verið „natinn, nærgætinn og hjálpsamur við viðvaningana“
en einnig getað verið „ákveðinn og hlífðarlaus“. Þá fullyrðir hún, að hann
hafi „notfært sér kynni sín af uppfærslum Reinhardts eftir bestu getu“ við
uppsetningu Þrettándakvölds og Vetrarœvintýris, og vísar um það til endur-