Andvari - 01.01.1998, Blaðsíða 151
ANDVARI
AF ÓSKRIFAÐRI LEIKLISTARSÖGU
149
stöðu Indriða Waages, heldur einnig hið auða drottningarsæti Stefaníu
Guðmundsdóttur? Óyggjandi svör við slíkum spurningum fáum við naum-
ast héðan af, en skýringin fellur ekki illa að staðreyndum málsins. Hvað
Indriða varðar, er deginum ljósara, að hann taldi ekki rúm fyrir Kamban
við hliðina á sér. Petta sýnir e.t.v. hversu bundnir hann og aðrir voru við
forsendur hins gamla tíma, þegar einn leikstjóri var talinn nægja félaginu.
Aðeins nokkrum árum síðar fannst engum tiltökumál, að tveir og jafnvel
þrír fastir leikstjórar skiptu með sér sýningum L.R. á hverjum vetri. Þannig
tóku öll viðhorf stakkaskiptum á örskömmum tíma.
Þórunn Valdimarsdóttir rekur í Aldarsögu nokkuð gang mála eftir að
fjaðrafokinu kringum Guðmund Kamban linnti. Par tengir hún brotthvarf
Guðrúnar Indriðadóttur af sviði árið 1929 beint við grimmileg skrif Kamb-
ans, sem þá var staddur á íslandi, um leik hennar.69 Veikindi Guðrúnar áttu
þó sjálfsagt nokkurn þátt í þessari ákvörðun, eins og Þórunn nefnir einnig.
E.t.v. náði hún ekki heldur að stilla saman strengi sína og yngra fólksins;
hún var komin af léttasta skeiði, gat ekki lengur leikið hlutverk ungra
kvenna með góðu móti og hafði hugsanlega ekki frekar en margar aðrar
ágætar leikkonur áhuga á því að eldast á sviðinu fyrir augum áhorfenda.
Framtíðin heyrði til Soffíu Guðlaugsdóttur, sem átti eftir að leika ýmsar
helstu glansrullur hinna eldri leikkvenna, þó að hún yrði aldrei slík stór-
stjarna í vitund þjóðarinnar sem frú Stefanía. Tímarnir voru aðrir, nýjar
leikhúshugmyndir að ryðja sér til rúms um lönd og álfur, hin gömlu
stjörnu-leikrit orðin aflóga, samstilltur leikflokkur (ensemble) að verða
æðsta viðmiðunin.
Langir tímar áttu að vísu eftir að líða, áður en Leikfélag Reykjavíkur
eignaðist í raun og veru það „ensemble“ sem nafnlausir leikrýnar Vísis létu
sem Indriði Waage væri að koma upp á sviðinu um miðbik þriðja áratugar-
ins. Það bíður síðari Ieiksögufræðinga að gera þeirri þróun allri skil, því að
höfundar Aldarsögu hafa látið það leggjast undir höfuð.
★
Eg hef nú fjallað um tvo aðskilda, en þó nátengda þætti í úttekt Þórunnar
Valdimarsdóttur á hinum sérstæðu tímamótaárum í sögu L.R., þegar hið
gamla „stjörnuleikhús“ var kvatt og fyrstu reikulu skrefin tekin í átt til nú-
tímalegri vinnubragða. Sem sjá má virðist mér Þórunn ekki hafa náð tök-
um á efnivið sínum. Það er ekki nóg með að henni sjáist yfir mikilvægar
heimildir, hún ofmetur einnig gögn á borð við leikdóma og frásagnir sam-
tíðarmanna, áttar sig ekki á hneigð þeirra, eins og það heitir á máli sagn-
fræðinnar, túlkar þau án tillits til þeirra aðstæðna sem þau eru sprottin úr.
Meginmistök Þórunnar snerta þó einn helsta þáttinn í aðferðafræði leik-
listarfræðinnar. Hún skynjar ekki, hversu breytileg öll viðmið eru í listgrein