Andvari - 01.01.1998, Page 152
150
JÓN VIÐAR JÓNSSON
ANDVARI
eins og leiklistinni, þegar hún þróast með jafnörum hætti og hún hefur gert
hér á landi á þessari öld. Á því leikur í sjálfu sér enginn vafi, að Guð-
mundur Kamban bjó yfir reynslu og kunnáttu, sem íslensk leiklistarvið-
leitni hefði haft mjög gott af, hefði honum lánast að miðla henni til hinna
ungu og óreyndu leikara í Iðnó - sem fátt verður vitaskuld sagt um héðan
af. En Þórunn getur ekkert sagt um möguleikana í tilboði Kambans, af því
að hún tekur skrumið í Vísi trúanlegt og ofmetur Indriða Waage sem leik-
stjóra. Hafi Indriði verið slíkur leikstjórnarmeistari sem Þórunn telur, var
vitaskuld lítil þörf á manni með þekkingu og reynslu Kambans. Af þessu
leiðir, að hún sér ekki, hversu alvarlegt Kambans-málið var í raun og veru,
a.m.k. í augum margra samtíðarmanna, sem vildu hag leikhússins sem
mestan.70 Heildarmynd hennar af tímabilinu verður ótrúverðug.
Árin eftir 1950: samfelld gullöld?
Sá sem tekur sér fyrir hendur að skrá sögu leikhúss kemst fljótt að raun
um, að þar skiptast á skin og skúrir. Tímabil stöðnunar taka við af tímum
framfara. Jafnvel þótt flest leiki í lyndi um langa hríð, eru ýmsar torfærur á
veginum, sem leikhúsfólkið þarf að sigrast á, en ekki blasa ætíð við þeim,
sem horfa um öxl af sjónarhóli fjarlægrar tíðar. Fá leikhús eru linnulaust á
framfarabraut, þó að hinn listræni grunnur sé vissulega missterkur og
aldrei megi afsaka lélega frammistöðu með því að vísa til einhverra lög-
málskenninga.
Leiksögufræðingurinn verður að reyna að átta sig á þessum veruleika,
lýsa framförum jafnt sem afturförum, styrkleikum sem veikleikum, og skil-
greina orsakir. Honum ber að setja sig í spor leikhúsfólksins sjálfs, draga
fram það sem vel tókst og einnig það sem miður fór. Hann verður að hafa
augun opin fyrir samspili áhorfenda og leikhússins, þeim áhrifum sem ráð-
andi almannasmekkur hafði á verkefnaval og listræn vinnubrögð, og við-
leitni leikhússtjóra til að hafa áhrif á þann smekk, stækka tjáningarsvið
leikhússins, gera það að öflugri þætti menningar og samfélags. Hann má
ekki hika við að leggja sjálfstætt mat á dóma samtíðarinnar, og hann verð-
ur að forðast að gleypa við goðsögnum um listrænan mikilleika einstakl-
inga eða jafnvel heilla tímabila.
í yfirliti Eggerts Þórs Bernharðssonar um árin eftir 1950 fer lítið fyrir
slíkri gagnrýni. Ég skal nefna dæmi. Ég hygg að fáum blandist hugur um,
að sjöundi áratugurinn var góður tími í sögu L.R. frá listrænum sjónarhóli,
einkum eftir að leikhúsið var orðið atvinnuleikhús undir forystu dugmikils
og vel menntaðs leikhússtjóra. Það var ekki aðeins, að verkefnum fjölgaði