Andvari - 01.01.1998, Page 169
ANDVARI
ATHUGASEMD UM ANDVARA 1997
167
sig í beinu stríði. Trúin verður stundum hvati manndrápa enda hafa „heilög
stríð" átt sér stað með kristnum líkt og íslam. Slíkar trúarhreyfingar er best
að varast. Og ástæða er til að fagna því að íslendingar hafa löngum borið
gæfu til að hugsa þegar ný trú hefur orðið á vegi þeirra. Sagði ekki einn af
biskupum landsins að heiðinn maður gæti tekið sér í munn allt sem sagt er í
sálmi Matthíasar, Faðir andanna? Heittrúarmenn hafa oft orðið erfiðir,
hættulegir. Flest er best í hófi.
Menn ættu að geta verið alvörumenn í trúmálum án þess að verða
grimmir og hættulegir umhverfi sínu. Og saga þessarar þjóðar ætti að duga
til þess að vara okkur við fordómum og ofstæki.
Þjóðkirkjan íslenska hefur löngum hvatt til hófsemi, enda viljað vera
kirkja allrar þjóðarinnar og jafnvel heiðinna manna sem vilja fara eigin
leiðir á ýmsan hátt. Friðurinn er undir því kominn að við þolum hvert ann-
að. Við ætlumst til þess af þjóðkirkjunni að hún stuðli að því að svo megi
verða.“
Ég þakka Halldóri Kristjánssyni fyrir athugasemdir sínar. Þess gætir að
hann er mótaður af anda nýguðfræðinnar sem taldi umburðarlyndi skipta
meiru en fylgd við kirkjukenningu. Þótt ég vilji skýrari línur og afdráttar-
lausari boðskap hjá kirkjunni tel ég að sjálfsögðu að sýna beri ókristnum
mönnum eða „heiðnum“ sem Halldór kallar svo fulla tillitssemi, enda
trúfrelsi í landinu. En þeir eiga ekki heima í kirkjunni og verða að taka
andmælum hennar. Þannig er, svo dæmi sé tekið, ekki hægt að una því
átölulaust að þeir noti kirkjuleg nöfn á athafnir sínar, eins og ungmenna-
fræðslu sem nefnd er furðuheitinu „borgaraleg ferming“. Að lokum skal
árétta að ég hef ekkert tilefni gefið til að vara við ofstæki, fordómum og
trúarbragðastyrjöldum. Ákveðnar skoðanir um trúmál og önnur mikilsverð
viðfangsefni eru ekki ofstæki og skoðanaleysi ekki frjálslyndi, þótt stund-
um sé kallað svo.
G. St.