Skírnir - 01.01.1937, Page 7
Bjarni Thorarensen.
Útvarpserindi flutt á 150 ára afmæli skáldsins, 30. des. ’36,
eftir Sigurð Nordal.
I.
Árið 1832 kom út í Kaupmannahöfn ritlingur á
dönsku: Island fra den intellektuelle Side betragtet. Höf-
undurinn var nýbakaður íslenzkur kandídat í guðfræði,
Tómas Sæmundsson. Kverið fjallar að mestu um mennta-
mál, bæði alþýðufræðslu og lærða skólann, en nokkuð er
þar líka drepið á bókakost þjóðarinnar og bókmenntir.
Höfundur nefnir þrjú skáld, sem þá voru öll látin fyrir
nokkurum árum, þá Jón Johnsonius, Jón Þorláksson og
Benedikt Gröndal. Hann álítur, að þeir hafi talsvert bætt
skáldskaparsmekk með Islendingum, en dæmi þeirra hafi
samt ekki orðið menntamönnum vorum sú hvatning til
þess að efla þjóðlegar bókmenntir, sem æskilegt hefði
verið. Síðan heldur hann áfram á þessa leið: „ísland hef-
ur aldrei áður átt skáld, sem jafnazt hefur að andagift á
við jústitsráð Thorarensen. Því hörmulegra er til þess að
vita, að hann virðist ekki sinna köllun sinni í þjónustu
menntagyðjanna, þó að hann hafi óvenju góða aðstöðu til
þess, eftir því sem tíðkast á íslandi. Skilur hann það ekki,
að skáld eins og Moliére, Milton og Klopstock, Holberg og
Ewald hafa gert meira fyrir föðurland sitt og heiminn
en Napóleon og hans líkar, meira fyrir trú og siðgæði en
þúsundir klerka? Að nota ekki og efla aðra eins hæfileika,
er blátt áfram að forsmá hina dýrðlegustu af öllum guðs
gjöfum, það er synd á móti skáldskaparins heilaga anda“.
amtsbófcjafmd
ci IrlfuvcYiú