Skírnir - 01.01.1937, Blaðsíða 24
22
Njála og- Skógverjar.
[Skírnir
Svínfellingar, drottnar Skaftafellsþings (og raunar
alls Austfirðingafjórðungs), verða að þola það, sem yfir
flesta aðra gengur. En í héraði þeirra var einn staður,
sem vissulega var mikið menntasetur, og það var
klaustrið í Þykkvabæ. Það má búast við, að það hafi
að mörgu leyti verið miðstöð allra mennta í þessum
hluta lands, og þegar talið berst að ritum eins og
Kristniþætti Njálu og ættartöluheimildinni, er eðlilegt,
að hugurinn hvarfli til þess staðar.
Um miðja 13. öld var í klaustrinu ábóti, sem mjög
kemur við sögu landsins, Svínfellingurinn Brandur Jóns-
son (ábóti 1247—1262). Honum er svo lýst, að hann var
ágætur höfðingi, vitur og vinsæll, ríkur og góðgjarn, og
í þann tíma hafði hann mesta mannheill þeirra manna,
er þá voru á íslandi. Hann kemur mjög við deilur manna
og jafnan á einn veg: að stilla til friðar, koma á sáttum.
Hann vann mjög að veldi kirkjunnar, eins og Tryggvi
Þórhallsson hefir sýnt í grein um Brand (í Skírni 1923).
í rauninni er öll stefna Brands mörkuð af því, að
hann var yngri bróðir, sem vantaði goðorð, en hafði metnað
engu minni en aðrir frændur hans. Hann leitaði sér þá
frama innan kirkjunnar. Höfðingjablóðið dylst ekki, hann
verður officialis tvívegis, ábóti, biskup. Af því, sem hann
hefir séð og numið í æsku utan lands og innan, hefir hugs-
unarháttur hans orðið kirkjulegur. En þó að hann sé ábóti,
er hann í eðli sínu veraldarklerkur, kirkjuhöfðingi. Hann
vill friða þjóðlífið — og setja kirkjuna í hásætið.
Brandur Jónsson er eini Svínfellingurinn, sem vitað
er um að fékkst við bókagerð. I handritum stendur það
skýrum stöfum, að hann þýddi Gyðinga sögu og Alexand-
ers sögu. Gyðinga saga er kirkjuleg; þó er fyrri híuti
hennar mikið til um bardaga (úr I. Makkabeabók). Alex-
anders saga er veraldleg, þýðing á frönsku latínukvæði
um afrek hins mikla herkonungs. Þýðandinn reynist vera
mesti snillingur á íslenzkt mál; íslenzki búningurinn hlýtur
að bera nokkurn keim af frumritinu, en Brandur hefir þó
ekki bundið sig við bókstafinn, sem hann skildi samt vel,