Skírnir - 01.01.1937, Side 94
92
Alexander Sergejevitsj Púsjkín.
[ Skírnir
götur og torg víða og gert stórskemmdir — kvæðið lýsir
manni, sem verður geðveikur og heldur, að „koparriddar-
inn“, líkneski Péturs, sé að elta sig.
Árin 1826—1832 starfaði Púsjkín mikið, lauk við
ýms rit þau, sem hann hafði byrjað á, meðan hann dvaldi
á Suður-Rússlandi, og bætti nýjum við. Hvert snilldar-
verkið rak annað. „Sígaunarnir" komu út 1827, „Eugen
Onegin“ smám saman í köflum 1825—1832, „Boris Godu-
nov“ 1831. Árið 1829 fékk hann leyfi til að ferðast með
her Rússa til Kákasus og Armeníu — Paskevitsj var þá að
berjast þar við Tyrki — og Púsjkín var viðstaddur ásamt
Rajevski hershöfðingja, fornvini sínum, er Rússar unnu
höfuðborg Armeníu, Erzerum. Um þá ferð skrifaði Púsj-
kín skemmtilega bók, „Ferðin til Erzerum“.
IV.
Árið 1828 kynntist Púsjkín í Moskva ungri stúlku að
nafni Natalía Nikolajevna Gontsjarova. Hún var allra
kvenna fríðust, og Púsjkín felldi hug til hennar. Hann
bað hennar, en móður hennar þótti hann ekki nógu rík-
ur, og var honum því í fyrstunni vísað frá. Hann tók sér
það nærri og fór þá í stríðið gegn Tyrkjum, eins og sagt
er frá að ofan. En er hann kom heim, endurnýjaði hann
bónorðið, og nú var honum tekið. Faðir hans lét honum
eftir meiri hlutann af stóreign, er hann átti, að nafni Bol-
dino í Nisjni-Novgorod-fylki. Fluttist Púsjkín þangað
1830 og giftist svo nokkru síðar (18. febr. 1831) í Moskva.
Var hann næstu árin oftast annað hvort í Boldino eða í
St. Pétursborg, og var nú aftur tekinn í embættismanna-
tölu í utanríkisráðaneytinu. 1833 ferðaðist hann um
Austur-Rússland til að kynna sér betur héruð þau, sem
uppreisn Púgatsjevs hafði farið fram í. Eru bréf hans til
konu hans frá þessari ferð nafntoguð.
Því miður kom brátt fram, að Natalía Nikolajevna
var kona, sem ekki átti við Púsjkín. Hann unni henni
hugástum, en rólegt og starfsamt heimilislíf, helzt úti í
sveit, var nú orðið það, sem Púsjkín mest af öllu þráði.