Skírnir - 01.01.1937, Síða 190
188
Um örnefnarannsóknir.
[ Skírnir
sögunnar um það, hvenær Óttar Vendilkráka hefði verið
uppi. —
Gildi örnefna fyrir náttúrurannsóknir. — Áður hefir
verið að því vikið, að ýmis einkenni landslags sé grund-
völlur nafngifta. Einnig hefir gróður og dýralíf oft verið
grundvöllur að nafngiftunum. Þegar slík nöfn eru gömul,
má oft vinna úr þeim mikilsverða vitneskju um landslag,
gróður og dýralíf á fyrri tímum. Frá því er örnefnin urðu
til, hafa oft orðið stórfelldar breytingar á gróðri og dýra-
lífi þeirra staða eða svæða, sem um er að ræða. Fjöldi
sænskra örnefna endar á orðum, sem tákna stöðuvatn, ey,
hólma, skaga, skóg eða lund, án þess þó að það, sem í þeim
orðum felst, sé framar til á þeim stöðum, sem bera nöfnin.
Allvíða eru og til samsett nöfn, sem í öðrum hvorum sam-
setningarlið hafa nöfn dýra, sem nú eru fágæt eða horfin
með öllu af því svæði, sem um er að ræða. Af örnefnum
má þannig fræðast um breytingar á landslagi, gróðri og
dýralífi; og er oft og tíðum um enga aðra vitneskju að
ræða um þessi atriði en þá, er 'vinna má úr örnefnum.
Gildi örnefnarannsókna fyrir héraöasöguna. — Rann-
sóknir á einstökum héruðum eða byggðarlögum og menn-
ingu og lifnaðarháttum íbúa þeirra eru nú að marki hafn-
ar í Svíþjóð. Slíkar rannsóknir eru í sjálfu sér mjög
merkilegar og geta með tímanum lagt drjúgan skerf til
menningarsögu hvers lands í heild, þar sem slíkar rann-
sóknir eru stundaðar. Þeim, sem leggja stund á héraða-
sögu, eru örnefnin athyglisverð hjálpargögn bæði um mál-
far í héruðum, afstöðu héraðsbúa til náttúrunnar, ætt
þeirra og uppruna, trúarbrögð þeirra og trúarsiðu, bygg-
ingarsögu héraðsins, sögulega atburði, sem gerzt hafa í
héraðinu eða koma því við á einhvern hátt, náttúrusögu
héraðsins o. s. frv. Því að þau fræðisvið, sem þegar er
talið, að örnefnarannsóknir geti auðgað, eru öll að meira
eða minna leyti þættir í sögu hvers héraðs eða byggðar-
lags; og menningarsaga og náttúrusaga hvers lands er auð-
vitað fyrst og fremst menningarsaga og náttúrusaga hinna
einstöku byggðarlaga í landinu.