Saga - 1964, Qupperneq 176
168
RITFREGNIR
mun fram í ragnarök dæma lifendur og dauða. T.-P. segir, að „ekki
er óhugsandi, að goðsagan um Óðin hafi orðið fyrir áhrifum af Kristi
á krossinum. En sé svo, hafa kristnu hugmyndirnar orðið algerlega
samræmdar arfteknum heiðnum hugmyndum. Við gætum vænzt þess,
að víkingur á Bretlandseyjum hafi virt fyrir sér mynd af deyjandi
Kristi og fundizt hún tákna deyjandi Óðin. Þetta gat orðið undirrót
að skáldlegri framsetningu goðsögunnar (um dauða á Yggdrasli) og
tengingu á slíkum trúarminnum sem þeim, að guð væri fórnfærður
guði i gálga, kvalinn þorsta, lagður spjóti í gegn, birtist síðan upp-
risinn, þótt hvert eitt þessara atriða ætti sér rætur í heiðinni arf-
sögn.“
Vel mætti hugsa sér Snorra hafa hagað myndskoðun sinni af jafn-
opinni skilningsþörf og þann viking, þótt Snorri hefði klerkmennt
umfram, þegar hann las goðdýrkunarefnið i Eddu sinni út úr eddu-
kvæðum og skáldamálsmyndum. Sé svo, hafa rangfærslur heiðinnar
trúar að sjálfsögðu getað átt sér stað (auk lausbeizlaðrar gamansemi
hans), en ekki sem viljaverk. Að ekki sé viljaverk neita raunar þeir
skýrendur goðsagnaritarans Snorra fyrr og nú, sem telja hann hafa
gert sér ljóst, að dýrkun ása hafi verið djöfladýrkun (blandin áa-
dýrkun) og honum hafi verið það snjallræði tamt að framkalla heiðni-
myndir með því að snúa kristnum bænum og heilögum hugmyndum
upp á Satan og breyta svo hans nafni í Óðins nafn. Eigi sjaldnar en
á 3. hverri síðu að meðaltali er Snorra getið í þessari bók T.-P. og
tillit til hans tekið, þótt hinar eldri heimildir séu vitanlega hafðar að
megingrundvelli ályktana.
Meðal þeirra kafla í bókinni, sem mest er á að græða menningar-
sögulega, þykir mér vera kapítulinn um „divine heroes": Jörmunrek,
Sigurð Fáfnisbana og mága hans Borgunda (Niflunga), Starkað,
Harald hilditönn, Haddingja. í ritinu um Óðinsdýrkun (1958) birtist
æðsti guð slíkra forfeðra sem „guð lögleysis og, að því er virðist, guð
konungshirðar". Hver veit, hve margt í sköpunarsögu konunglauss
þjóðveldis var mótvægishræring gegn þessu hamslausa víkingaskeiðs-
afli? En neistaflug milli spennusterkra skauta þarf til skáldskapai
og til hvers nýs menningarfyrirbrigðis. Og þetta var spenna, sem Sat
endurmyndazt, þótt í öðrum aðstæðum væri. Óðinn reis upp dauður.
Búandmenn Þórs urðu að mold Jarðar, móðurinnar. En ástmegir Óð-
ins, goðkunnar hetjur, sem kapitulinn fræðir oss hlutlægt um, hnigu
í val og létu fölvan jó flugstíg troða til sérkennilegrar upprisu a
ýmsum tímum. Þeir urðu, líkt og Shakespeare sagði, draumar þeir’
sem enn verða gerðir úr menn.
B. S.