Íslenskt mál og almenn málfræði - 01.01.1996, Page 61
59
Frumlag ogfall að fornu
og tengieyðing, hafa þó sennilega lítið gildi, eins og Halidór Armann
Sigurðsson (1994) benti á og rakið var hér að framan. Halldór minn-
ist hins vegar ekki á þriðja prófið, og ég sé ekki betur en það sé gott
og gilt. Það er svokölluð „andlæg frumlagslyfting“ (subject-to-object
raising, sjá einkum Höskuld Þráinsson 1979), „afbrigðileg fallmörk-
un“ (exceptional case marking), „þolfall með nafnhætti“ (accusativus
cum infinitivo) eða hvaða nafn menn vilja hafa á þessari formgerð.
Með því er átt við það þegar frumlag fyllisetningar (sem ákveðnar
sagnir taka með sér) fer að haga sér eins og andlag; fer að standa í þol-
falli (ef um nefnifallsfrumlag var að ræða) og hættir að stjórna per-
sónu og tölu sagnar. Þetta er sýnt í (18b):
(18) a Ég tel [að Sveinn hafi lesið bókina].
b Ég tel [Svein hafa lesið bókina].
I (18b) kemur fram að sá liður sem sanrsvarar frumlagi aukasetningar-
innar í (18a), Sveinn, fær dæmigert andlagsfall, þ. e. þolfall; og sögnin
í aukasetningunni stendur í nafnhætti, í stað persónuháttar í (18a). Samt
sem áður virðist ljóst að Sveinn hefur sama merkingarhlutverk í (18b)
og í (18a); er í báðum tilvikum gerandi með sögninni lesa.
Höskuldur Þráinsson (1979) hefur fjallað ítarlega um þessa setninga-
gerð, og fært að því rök að eingöngu frumlög geti breytt um stöðu á
þennan hátt. Þó er ljóst að aukafallsnafnliðir haga sér að mörgu leyti eins:
(19) a Ég tel [að Sveini leiðist bókin].
b Ég tel [Sveini leiðast bókin].
Þetta dæmi er frábrugðið (18) að því leyti að aukafallsnafnliðurinn í
aukasetningunni breytir ekki um fall í ó-setningunni. Það er eðlilegt
vegna mismunandi stöðu sem þolfall og þágufall eru yfirleitt talin hafa
í fallakerfinu (þolfall sem „structural“ fall en þágufall sem „inherent“
eða „lexical" fall).12 Hins vegar er (19b) hliðstæð (18b) að því leyti að
sögnin í aukasetningunni stendur í nafnhætti en ekki i persónuhætti.
12 Með þessu er átt við það að fall þolfallsliða er yfirleitt talið vera afleiðing af
stöðu liðanna í setningu, en ekki stjómast af ákveðnum orðum. Þess vegna breytist
fall þolfallsliðar þegar setningarstaða hans breytist (t. d. úr frumlagi í andlag, eða öf-
ugt). Þágufalli er aftur á móti stýrt af einstökum orðum, en er óháð setningarstöðu.
Þess vegna breytist fall þágufallsliða ekki á sama hátt þótt setningarstaða breytist, þar
eð merkingarleg vensl haldast óbreytt.