Andvari - 01.01.2011, Blaðsíða 11
ANDVARI
FRÁ RITSTJÓRA
9
*
í greinum hér í heftinu er varpað ljósi á margt í ævi og störfum Jóns forseta.
Hann sameinaði það með fágætum hætti að vera gjörhugull og vandvirkur
fræðimaður og um leið harðskeyttur baráttumaður í stjórnmálum. Afköst
Jóns í fræðimennsku og útgáfustörfum eru raunar slík að maður undrast
að hann skyldi einnig hafa orku til að beita sér í stjórnmálum eins og raun
ber vitni. Fræðimaðurinn og stjórnmálamaðurinn Jón Sigurðsson voru ein
heilsteypt persóna. Réttindabarátta hans gagnvart dönsku stjórninni byggði
jafnan á heimildum og sögulegum rökum.
Jón forseti er gott dæmi um málefnalegan og rökfastan stjórnmálamann
sem höfðaði til raunsýni og skynsemi, en síður til tilfinninga. Glettni eða
gamansemi bregður varla fyrir í máli hans og persónulegri rætni ekki heldur.
Sagt var að hann ritaði aldrei skammargreinar þegar hann deildi við menn
en hann gat vitanlega verið þykkjuþungur, enda skapið mikið en vel tamið.
Málflutningur hans var þéttur fyrir og einbeittur, en kannski ekki að sama
skapi skemmtilegur. Ritverk Jóns hafa ekki verið prentuð mikið á seinni
tímum, líklega af því að ekki er talið að menn lesi þau almennt sér til yndis-
auka. Þau eru því flest ókunn íslendingum öðrum en fræðimönnum. En Jón
hefði getað sagt eins og einn ágætur sænskur forsætisráðherra á síðustu öld
sem sakaður var um að vera ekki nógu skemmtilegur: „Það er ekki mitt starf
að skemmta fólki“.
Þegar Jón Sigurðsson festist í sessi sem þjóðhetja, einingartákn og fremsti
baráttumaður íslensks sjálfstæðis, hlutu allir að vilja eigna sér hann. Menn
hafa fyrr og síðar hent á lofti sitt af hverju í málflutningi hans sem þeir töldu
sér og sínum flokki til framdráttar. Þess vegna varð það tíðum óljóst hverju
hann hafði í rauninni haldið fram, stjórnmálaskoðanir hans hurfu í skugga
ímyndar hins mikla leiðtoga. Að þessu vék Tómas skáld Guðmundsson undir
miðbik síðustu aldar í kvæðinu „Þjóðhátíð“ (Fljótiö helga, 1950). Þar er því
lýst er mannfjöldi safnast að gröf Jóns Sigurðssonar á þjóðhátíðardegi hins
nýstofnaða lýðveldis „og hlýðir ræðu frá í fyrravor / sem flutt er, eins og þá, í
minning hansí framhaldi af því segir í kvæðinu:
Og víst er sælt að geta gengið að
jafn góðum manni á svona vísum stað,
sem auk þess getur enga björg sér veitt,
þótt allt hans líf sé rangfært sitt á hvað.
Því nú er öllum annt um forsetann
og allir landsins flokkar slást um hann,
og þeir, sem aldrei tóku tryggð við neitt,
þeir telja sér hann utanflokkamann.