Andvari - 01.01.2011, Blaðsíða 15
ANDVARI
JÓN SIGURÐSSON 1811-2011
13
hneigður og skarpur en ekki var hann samt sendur í Bessastaðaskóla, eina
lærða skólann á landinu, heldur nam hann til stúdentsprófs heima hjá karli
föður sínum. Munu búhyggindi séra Sigurðar hafa ráðið en dýrt var að senda
strákling í skóla suður á Álftanes.
í uppvexti Jóns Sigurðssonar voru hugmyndir Upplýsingarinnar orðnar
ráðandi hjá flestum málsmetandi íslendingum. Trúin á skynsemi mannsins,
svokallaður rationalismi, tók að svífa æ meira yfir vötnum og menn teknir
að trúa því að vísindalegar aðgerðir og skynsemi geti bætt mannfélagið til
mikilla muna. í stað svartsýni og strangleika hins lútherska réttrúnaðar,
sem ríkjandi hafði verið um nærfellt tveggja alda skeið á íslandi, kom með
Upplýsingunni ákveðin bjartsýni, mannúð og framfarahugur. Meðal annars
var þar boðað frelsi einstaklingsins. Upplýsingarmennirnir lögðu ofuráherslu
á fræðslu og ber stefnan nafn sitt af því.
Rit Lærdómslistafélagsins, sem komu út í 15 bindum á árunum 1791-1798,
boðuðu hugsjónir Upplýsingarmanna. Margt bendir til að þau hafi verið til
á Hrafnseyri á uppvaxtarárum Jóns Sigurðssonar og mótað hugmyndaheim
hans. Ritin voru í daglegu tali kölluð Félagsritin en síðar þegar Jón stofnaði
sitt eigið tímarit kallaði hann það Ný félagsrit eins og þau væru hugsuð sem
framhald hinna fyrri. Hér má bæta við að ömmubróðir Jóns Sigurðssonar,
Olafur Olavius, var einn af stofnendum Lærdómslistafélagsins og meðal
boðbera Upplýsingarstefnunnar á íslandi. Ólafur skrifaði merka ferðabók og
fjölda ritgerða og bæklinga um garðyrkju, búnaðarmál og fiskveiðar. Hann
var aðalstofnandi Hrappseyjarprentsmiðju árið 1773 en sú prentsmiðja var
fyrsta veraldlega prentsmiðjan á íslandi og sú fyrsta í einkaeign.
II
Þegar Jón var 18 ára gamall, vorið 1829, hleypti hann heimdraganum til að
þreyta stúdentspróf í Reykjavík. Hann gekkst undir prófið hjá séra Gunnlaugi
Oddssyni dómkirkjupresti. í vottorði prestsins segir að kennsla séra Sigurðar
á Hrafnseyri hafi borið svo góðan ávöxt að stúdentinn verðskuldi mikið og
jafnvel afburðalof. Séra Gunnlaugur segir ennfremur að Jón hafi reynst sér
siðaður og kurteis, hann sé gæddur skörpum gáfum, ágætri athyglisgáfu og
honum veitist frábærlega auðvelt að velja rétt og skýrt þau orð sem við eigi.
Föðurbróðir Jóns, Einar Jónsson, kallaður borgari, var um þessar mundir
verslunarstjóri hjá voldugasta danska kaupmanninum í Reykjavík, R C.
Knudtzon. Hjá Einari bjó Jón eftir að hann kom suður og gerðist síðan búðar-
strákur hjá honum um eins árs skeið. Þar kynntist hann náið verslunarháttum
danskra íslandskaupmanna. Síðar átti hann eftir að velgja R C. Knudtzon
rækilega undir uggum.