Andvari - 01.01.2011, Síða 25
andvari
JÓN SIGURÐSSON 1811-2011
23
verkum skálda á borð við Bjarna Thorarensen, Jón Þorláksson á Bægisá og
Jón Thoroddsen, starfaði Jón alla ævi að því að grafa upp gömul skjöl og
gjörninga varðandi sögu íslands og stjórnsýslu, skýra þau og gefa út. Sér þess
stað í stórvirkjum eins og íslensku fornbréfasafni, Lovsamling for lsland,
Safni til sögu Islands, Skýrslum um landshagi á Islandi og Tíðindum um
stjórnarmálefni íslands. Með þessu útgáfustarfi sínu veitti hann öllum opinn
aðgang að gögnum um sögu íslands sem var lykilatriði í sjálfstæðisbaráttunni
og í anda nútímalegra lýðræðislegra stjórnarhátta um opna stjórnsýslu. Þarna
var Jón Sigurðsson langt á undan sinni samtíð.
Stjórnmálabaráttu sína háði Jón Sigurðsson með ýmiss konar hætti. Fyrir
utan útgáfuna á Nýjum félagsritum voru bréfaskriftir eitt helsta tæki hans
til að ná til fólks en hann átti í víðtækum bréfasamskiptum við menn víðs
vegar um ísland. Þar bæði hvatti hann þá til dáða en ásamt Ingibjörgu tók
hann jafnfamt að sér víðtæka fyrirgreiðslu fyrir íslendinga. Þau voru eins
konar sendiherrar þeirra í Kaupmannahöfn. Þar sem Alþingi var einungis
ráðgefandi allt til 1874 voru bænarskrár eitt helsta tæki íslendinga til að
koma óskum um úrbætur á framfæri við stjórnvöld í Kaupmannahöfn. Jón
átti frumkvæði að mörgum slíkum bænarskrám og myndaðist þannig víð-
tækt net undirskriftasafnana sem gerði menn virka í stjórnmálabaráttunni.
Einnig hvatti hann menn til fundahalda og eru þar þekktastir Þingvallafundir,
Kollabúðarfundir og Þórsnesfundir.
Sjálfur tók Jón sér landsföðurlegan sess í huga íslendinga og var það með-
vituð aðferð. Hann var iðinn við að láta taka af sér ljósmyndir, sem sendar
voru heim, og þegar árið 1857 var fjöldaframleidd steinprentuð mynd af
honum sem var dreift í öll kjördæmi landsins en lítið var þá um myndir á
íslenskum heimilum. í Kaupmannahöfn hélt Jón sig ríkmannlega og var það
liður í að mark væri tekið á honum á æðstu stöðum. Sjálfur virðist hann hafa
haft mikla persónutöfra og hann átti auðvelt með að hrífa menn með sér hvort
sem var í persónulegum viðræðum eða í ræðustól.
VII
Á þingunum 1857 og þó einkum 1859 lenti Jón Sigurðsson þó í nokkrum
andbyr. Svokallaður fjárkláði var þá á góðri leið með að leggja búfjárræktina,
höfuðatvinnuveg íslendinga, í rúst. Dönsk stjórnvöld töldu fært að lækna
sjúkdóminn og sömu skoðunar var vísindamaðurinn Jón. Flestir íslendingar
vildu hins vegar útrýma sjúkdómnum með niðurskurði á fé. Danska stjórnin
taldi hann vera eina manninn sem hefði nægan styrk meðal þjóðarinnar til að
grípa í taumana og standa fyrir lækningum á fjárkláðanum í samvinnu við
dýralækna. Hann var gerður að stjórnarerindreka í málinu á háum launum