Andvari - 01.01.2011, Page 39
andvari
FORSETINN í SÖGURITUN ÍSLENDINGA
37
því fram að eitthvað sé rangt eða óviðeigandi við að fara svona að heldur til að
sýna leið til að skapa meiri háttar söguhetju, líklega ekki síðri en þá að hlaða
lofi á hana. Það verður svo að vera hlutverk hvers höfundar að meta hverjir
verðskulda það að verða meiri háttar söguhetjur.
Síðasta stóra yfirlitsritið um íslandssögu á athafnatímabili Jóns Sigurðs-
sonar er níunda bindi af Sögu íslands sem kom út árið 2008. Þar heldur hann
enn stöðu sinni, er nefndur á 60 blaðsíðum samkvæmt nafnaskrá, á fimm
síðum í bókarhlutanum sem nær til 1830, á 50 síðum í kaflanum um almenna
Islandssögu 1830-74 og fimm í bókmenntasögukafla.35 Varla mun þar brydda
verulega á nýrri túlkun á söguhetjunni.
V
Þegar kemur að fræðiritum þar sem saga Jóns Sigurðssonar er könnuð í
þrengra samhengi hefur þegar verið nefnt greinasafn um hann í Skírni árið
1911. Annars er varla ástæða til að byrja fyrr en með fimm binda ævisögu
hans eftir Pál Eggert Ólason sem kom út á árunum 1929-33, samtals 2.311
blaðsíður. Ef eitthvað hefur verið farið að draga úr hóli manna eins og
Jóns Aðils um söguhetjuna ber ekkert á því hjá Páli Eggert. Hér er stunduð
feimnislaus hetjudýrkun. í aðfaraorðum fyrsta bindis má lesa þetta:36
Þeir menn einir, sem ótrauðir eru og kvíðalausir, geta hrundið nokkuru áleiðis, og ef
þeir eru framsýnir með forsjá, verða þeir sem vitar, er birtu bera, svo vítt sem tekur
ljósmagn þeirra. Það er gifta hvers þjóðfélags að eign sem flesta slíkra þegna. Ef
þessir kostir eru samfara miklu viti, víðtækri þekkingu, ríkri þjóðhollustu, góðgirni
og drengskap, þá lýsir þar sem af kyndli alþjóð allri samtímis og síðan, því að það er
eðli sannra mikilmenna, að gagn stendur af þeim eigi öld þeirra einni, heldur einnig
óbornum kynslóðum. Þeir menn eru afreksmenn, sem hefjast upp úr öld sinni og benda
þjóð eða þjóðum á leiðir til framfara og umbóta. Á þeim hvílir forsjá mannkyns. Þeir
kippa þjóðum fram um set. Þeir valda aldahvörfum.
Víst leikur það ekki á tveim tungum, að Jón Sigurðsson var einn slíkur afreksmaður
þjóð sinni.
Síðasta bindinu lýkur á Niðurlagsorðum.37 Þau hefjast á orðunum: „Þá höfum
vér að hinztu hvíldum fylgt ferli þess manns, er mikilhæfastur hefir verið
allra þeirra, er þjóðmálum hafa sinnt á íslandi, að fornu og nýju.“ Hér má líka
lesa þessa staðhæfingu:
Afreksmenn eru seint lofaðir um skör fram. Og þessi maður verður aldrei oflofi borinn;
jafnvel öfundsjúkir menn og illgjarnir munu seint voga að láta til sín heyra, að þeir sjái
eftir sannmæli um hann, þótt ekki væri vegna annars en hagsmuna sjálfra þeirra. Því
mun ritað verða um þann mann öld eftir öld, meðan íslendingar halda þjóðerni sínu og
meðan þeir muna, að á honum hvílir þjóðartilvera þeirra.