Andvari - 01.01.2011, Blaðsíða 95
andvari
MYNDIN AF JÓNI FORSETA
93
og falaðist eftir líkneski af Jóni Sigurðsyni í fullri líkamsstærð. Fjár skyldi
aflað með samskotum. Fengjust 10.000 til 15.000 krónur, hefði Tryggvi
helzt kosið styttu, sem standa mætti á torgi í Reykjavík. Hins vegar átti
Tryggvi naumast von á meira en 3.500 til 4.000 krónum, og yrði þá að láta
snotran minnisvarða á gröfina nægja. Bergslien var þá orðinn vel þekktur
listamaður um Norðurlönd af líkneskinu af Karli Jóhanni konungi í Osló og
var íslendingum kunnur af brjóstmyndinni af Jóni í Alþingishúsinu. Bergslien
féllst á þetta, kvaðst sammála Tryggva um, að helzt ætti að reisa styttu af Jóni
á torgi, en ekki skjöld á gröf hans, og sendi Tryggva teikningar. Þeim samdist
um verð, 2.500 kr. fyrir gifsmyndina, en minnisvarðinn (bronsafsteypa á
lágum stöpli) myndi kosta um 7.000 krónur. Tryggvi getur þess í bréfi, að
!,engin reglulega góð ljósmynd sé til af Jóni, og yrði ef til vill ráðlegast að fá
senda utan brjóstmynd Bergsliens af honum.“27 Var stofnuð nefnd, þar sem
Tryggvi átti sæti ásamt öðrum. Nefndin ákvað, gegn vilja Tryggva, að reisa
ekki styttu af Jóni á torgi, heldur láta legstein duga fyrst um sinn. Hið eina,
sem frá Bergslien kom, var því lítill skjöldur á legstein Jóns í kirkjugarðinum
í Reykjavík og kostaði 778 krónur. Maður nokkur tók afsteypu af skildinum
á stríðsárunum í leyfisleysi og seldi síðan í stórum stíl.
Það var svo ekki fyrr en 1910, að Einar Jónsson var fenginn til að gera
líkneski af Jóni Sigurðssyni eins og áður sagði. Hann kom til íslands og vann
verkið í vesturenda alþingishússins og hafði brjóstmynd Bergsliens fyrir sér
og trúlega einnig olíumálverkið í neðri deild. Líkneski Einars, ásamt mynd-
inni af „Brautryðjandanum" á stöplinum, var síðan afhjúpað fyrir framan
stjórnarráðið á aldarafmæli Jóns 1911 svo sem fyrr var sagt.
Haraldur Briem sóttvarnalæknir, Helgi Gíslason myndhöggvari, Helgi Skúli Kjartans-
son prófessor, Jón Þ. Þór sagnfræðingur og Olafur Olafsson fyrrum landlæknir gerðu
gagnlegar athugasemdir við fyrri gerð textans, en þeir bera þó enga ábyrgð á efni
greinarinnar eða þeim skoðunum, sem þar eru settar fram.