Andvari - 01.01.2011, Page 147
ANDVARI
MANNTAFL SJÁLFSTÆÐISBARÁTTUNNAR
145
Hallgrímssyni (1807-1845) í tilefni af aldarafmæli hans. Hita og þunga af
þessari söfnun báru Stúdentafélögin í Reykjavík og Kaupmannahöfn en hug-
myndin var einna fyrst viðruð af Vilhjálmi Jónssyni í blaðagrein árið 1897.
Þar sagði að Jónas hefði „skrifað nafn sitt andans og frelsisins gullna letri á
söguspjald þjóðar vorrar með hinum þjóðernisríka og formþýða skáldskap
sínum“.14 Vilhjálmur minnti einnig á, líkt og menn höfðu gert í tilvikum
Tómasar og Jóns forseta, að það væri „alsiða í öðrum löndum að reisa látn-
um ágætismönnum og þjóðskáldum eitthvert heiðurs- eða minningarmark í
viðurkenningar skyni fyrir starf þeirra í þarfir þjóðarinnar“. Rétti staðurinn
fyrir slíka styttu af Jónasi var í Reykjavík, að mati Vilhjálms, enda ætti
hún:
sem höfuðbær landsins að verða miðbik allrar menningar vorrar og andlegs lífs, og
það er sómi alls landsins, að prýði hennar og vegur sé sem mestur. Á Austurvelli í
miðjum bænum stendur líkneski hins heimsfræga kynlanda vors, listasmiðsins Alberts
Thorvaldsen, og það ætti eigi illa við og væri bæjarprýði, að standmyndir hinna beztu
manna vorra og listaskálda yrðu reistar á ferhyrningsreitunum í kringum þennan mikla
meistara.
Athyglisvert er að Vilhjálmur kalli Thorvaldsen „kynlanda“ sinn en svo
virðist sem hann sjái Austurvöll fyrir sér sem ódáinsakur íslenskra ágætis-
manna. Hliðstæðir styttugarðar voru þekktir víða erlendis frá; meðal fornra
dæma af þessu tagi er hinn svonefndi Heimspekingahringur í námunda við
píramídana við Sakkara í Egyptalandi sem talinn er vera frá því á 3. öld f.Kr.
Þar standa í hálfhring líkneski af átta grískum heimspekingum og skáldum,
þeirra á meðal Platon, Hómer og Pindar.15
Einar Jónsson myndhöggvari var fenginn til að gera styttuna af Jónasi en
þegar leið að afhjúpun hennar kom fram önnur hugmynd um staðsetningu
hennar og styttu Jóns Sigurðssonar í miðbænum. Hún tengdist meðal annars
tveimur brjóstmyndum sem til voru, annars vegar af Bjarna Thorarensen
(1786-1841) og hins vegar Kristjáni Jónssyni Fjallaskáldi (1842-1869). Efnt
hafði verið til samskota í kringum aldarafmæli Bjarna til að kosta gerð brjóst-
myndar af honum en í forsvari fyrir söfnunina voru Bogi Melsteð og Valtýr
Guðmundsson.16 Myndin var gerð en ekki safnaðist nægt fé til að steypa
undir hana stöpul utandyra. Brjóstmyndin af Kristjáni var gerð að frum-
kvæði frænda hans og nafna, Kristjáns Jónasarsonar, sem hafði ásamt Jakobi
Gíslasyni kaupmanni á Akureyri safnað fé til verksins um margra ára skeið.
Skömmu fyrir andlát sitt 1905 sendi Kristján séra Eiríki Briem brjóstmyndina
og fól honum að finna henni varanlegan stað í Reykjavík. í grein í Óðni árið
1906 kemur fram að séra Eiríkur sjái íslenska ódáinsakurinn fyrir sér framan
við Safnahúsið við Hverfisgötu sem þá var að rísa af grunni: